Skoðun

Sérstaða RÚV

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Um starfsemi Ríkisútvarpsins gilda lög og reglur og á grundvelli þeirra er gjarnan talað um sérstöðu Ríkisútvarpsins umfram aðra miðla. Lögin kveða á um hlutleysi, vönduð vinnubrögð og annað slíkt. Allt er þetta fínt á pappírnum og alveg klárt hvað löggjafinn ætlast til. En því miður virðist sá frómi vilji löggjafans rekast á við skoðun starfsfólks og stjórnenda Ríkisútvarpsins, að minnsta kosti þetta með vönduðu vinnubrögðin.

Nærtækast er að rifja upp neyðarlegu atburðarásina sem leiddi til þess að Ríkisútvarpið ákvað að borga manni einum bætur fremur en að viðurkenna að það gat ekki staðið við frétt um hann og enn á eftir að svara fyrir fordæmalausa árás fréttamanns Ríkisútvarpsins á veitingastaðinn Sjanghæ á Akureyri.

Í gær komst svo héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið hefði sýnt af sér „stórfellt gáleysi“ og það hafi látið undir höfuð leggjast að tryggja að lögboðnum starfsháttum væri fylgt. Jafnframt er nú beðið úrskurðar forsætisráðuneytisins um hvort Ríkisútvarpið hafi blekkt forsætisráðherra og frú Vigdísi Finnbogadóttur til að taka þátt í lögbroti.

Væri um að ræða venjulega ríkisstofnun væru einhverjir búnir að þurfa að axla ábyrgð. En sérstaða Ríkisútvarpsins er nefnilega sú að enginn þarf að bera ábyrgð og það er í raun skrýtið að héraðsdómur fatti ekki að sú krafa að starfsmennirnir fylgi lögboðnum starfsháttum er í raun fráleit.

En hví ekki að breyta lögunum þannig að þau endurspegli raunveruleikann? Fyrsta og síðasta grein laganna um Ríkisútvarpið yrði þá svona „Ríkisútvarpið er eign starfsmanna þess og þeir geta gert það sem þeim sýnist með það.“




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×