Skoðun

Landið selt?

Davíð Þorláksson skrifar
Fjárfesting erlendra aðila í landi hefur valdið uppnámi hjá sumum. Einhverjir stjórnmálamenn voru ekki lengi að ríða fram á völlinn og krefjast þess að hið opinbera gripi í taumana. Til dæmis er lagt til að hinu opinbera verði veittur forkaupsréttur að landi. Stjórnmálamenn eru oft eins og ráðríkir foreldrar sem eiga erfitt með sleppa takinu af uppkomnum börnum.

Það er mikilvægt að hafa í huga að það er ekki hægt að pakka landi niður og fara með það annað. Þá þurfa innlendir sem erlendir landeigendur að fara að hinum ýmsu lögum og reglum sem gilda um notkun á landi og takmarka nýtingu á því og auðlindum þess. Þar má t.d. nefna skipulagslög nr. 123/2010, lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu nr. 57/1998, lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994, lög um lax- og silungsveiði nr. 61/2006 og svo fjölda reglugerða sem hafa verið settar á grundvelli þessara laga.

Það er því alger óþarfi að brjálast. Þótt einhver eigi land getur hann ekki gert það sem honum sýnist með það. Og auðvitað skiptir engu máli hvort það er Íslendingur eða útlendingur sem á það. Það er líka tímabært að stjórnmálamenn átti sig á því að eignarréttur er ekki stjórntæki sem þeir geta gripið til að vild. Til þess eru lög og eins og sjá má hér að ofan þá er nóg til af þeim fyrir hið opinbera til að grípa til.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×