Skoðun

Berjumst saman gegn einnota plasti

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar
Allar jógúrtdósirnar sem ég borðaði upp úr sem barn eru sennilega til enn þann dag í dag. Allir grænu sælgætispokarnir. Allar ídýfudósirnar.

Um alla jörð safnast upp haugar af plasti. Plastflöskur, plastpokar, plastlok, plaströr, sígarettustubbar, eyrnapinnar – plast og meira plast.

Alltof oft endar plastið úti á víðavangi, flýtur niður ár og læki og endar í vötnum og úti í sjó. Milljónir tonna af plasti enda í hafinu á hverju einasta ári, með ófyrirsjánanlegum afleiðingum fyrir lífríki Jarðar. Plast hverfur auk þess ekki eða eyðist heldur brotnar niður í smærri og smærri hluta og verður að endingu að örplasti sem ekki er betra fyrir umhverfið. Þessa plastmengun verðum við að stöðva og það með öllum tiltækum ráðum. Þegar ég varð ráðherra umhverfismála ákvað ég að plastmálin yrðu eitt af mínum forgangsmálum. Á þessu ári hefur ráðuneytið úthlutað verkefnastyrkjum til ýmissa plast- og strandhreinsunarverkefna og fleiri verkefni eru framundan sem verða kynnt nú í september.

Ég legg áherslu á að við nálgumst plastmálin heildstætt. Að við setjum sem dæmi niður fyrir okkur hvaða rannsóknir og hvers kyns vöktun sé nauðsynleg, ráðumst í beinar aðgerðir til að draga úr plastnotkun, svo sem með skattlagningu eða banni á ákveðnum gerðum af einnota plasti, og rýnum í það hvernig best sé að stuðla að nýsköpun á vörum sem koma í stað plasts. Starfshópi sem ég kom á laggirnar fyrr á árinu er falið að koma með tillögur er þetta varðar. Þá mun ég í erlendu samstarfi leggja sérstaka áherslu á varnir gegn plastmengun, enda er hún sameiginlegt viðfangsefni okkar allra.

Plastlaus september er hafinn. Átakinu er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um ofgnótt og skaðsemi plasts í umhverfinu og benda á leiðir til að draga úr notkun á einnota plasti. Ég fagna framtakinu einlæglega og þeirri miklu vitundarvakningu sem hefur orðið. Tökum öll þátt og notum minna plast í september – og alla hina mánuðina.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×