Skoðun

Eflum íslenskt mál

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Á dögunum voru kynntar aðgerðir sem miða að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Þær snerta ólíkar hliðar þjóðlífsins en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Heildstæð nálgun okkar til stuðnings íslenskunni tengist meðal annars íslenskum fjölmiðlum og þeirra hlutverki í framþróun tungumálsins okkar; þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd.

Aðgerðir stjórnvalda til styrktar einkareknum fjölmiðlum á Íslandi marka ákveðin vatnaskil en við ráðgerum að verja um 400 milljónum í beinar aðgerðir þeim til stuðnings frá og með næsta ári. Þar mun mestu muna um ritstjórnarsjóð sem veita mun endurgreiðslur vegna hluta ritstjórnarkostnaðar einkarekinna fjölmiðla. Skilyrði fyrir slíkum endurgreiðslum verða skýr og einföld og styrkveitingar hans fyrirsjáanlegar og óháðar tæknilegum útfærslum. Frumvarp þess efnis mun fara í opið samráð síðar í vetur og verður síðan lagt fyrir í ársbyrjun 2019.

Annað brýnt efni sem við höfum kynnt til þess að jafna hlut íslenskra fjölmiðla er að samræma gjaldtöku við kaup á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum. Til skoðunar er að skattleggja kaup á erlendum netauglýsingum til þess að jafna stöðu innlendra fjölmiðla og erlendra vefmiðla sem taka til sín ört stækkandi hluta auglýsingamarkaðar. Í þessu horfum við til nágrannalanda okkar og Evrópuríkja sem einnig hafa sambærileg mál til skoðunar.

Aukinheldur munum við styðja betur við textun, talsetningu og táknmálstúlkun í myndmiðlum þar sem einkareknir fjölmiðlar munu geta sótt um endurgreiðslur til að mæta kostnaði vegna lögbundinnar textunar og talsetningar. Sérstök áhersla verður þar lögð á efni sem ætlað er börnum og ungmennum.

Þetta er í fyrsta sinn sem stjórnvöld grípa til beinna aðgerða til að styðja við rekstur einkarekinna fjölmiðla en slíkt hefur þekkst á Norðurlöndunum um áratuga skeið. Það er von mín og vissa að þessar aðgerðir muni breyta miklu fyrir rekstrarumhverfi þeirra strax á næsta ári.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×