Skoðun

Verkefni kynslóðanna

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030, sem forsætisráðherra og sex aðrir ráðherrar kynntu í gær, mun vafalaust marka viss þáttaskil í málaflokknum á Íslandi. Þörf var á metnaðarfullri áætlun sem tekur af allan vafa um að yfirvöld hér á landi hafi vilja og getu til að horfast í augu við breytta tíma. Aðgerðaáætlunin ber vitni um þennan metnað og gefur tóninn fyrir þau krefjandi verkefni sem ríkið, sveitarfélög, fyrirtæki og almenningur þurfa að takast á við á næstu áratugum.

Áætlunin byggir bæði á áformum um kolefnishlutleysi á Íslandi árið 2040 og á skuldbindingum landsins gagnvart alþjóðlegum samþykktum sem þjóðir heims hafa sameinast um. Áform ríkisstjórnarinnar eru tiltekin í 34 atriðum sem eiga að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og aukinni kolefnisbindingu úr andrúmslofti.

Markmiðin eru einföld og skýr, en í framkvæmd útheimta þau margþætt og flókið átak. Átak sem krefst þess að við horfum lengra en fjögur ár fram í tímann, átak sem er dauðadæmt án vilja til að styðja við nýsköpun og framfarir í vísindum. Þetta er átak sem þarfnast bæði efnahagslegra hvata og aukinnar vitundar um óseðjandi neyslu okkar. Verkefni þetta er okkar kynslóðar að móta og ýta úr vör, þeirrar næstu að halda á lofti og framfylgja, og afkomenda þeirra að bæta og efla, á sama tíma og þau takast á við afleiðingar losunar okkar og forvera okkar.

Í aðgerðaáætluninni er að finna vísi að þessu mikla kynslóðaverkefni sem felst í því að stemma stigu við losun. Og sem upphafspunktur á slíkri vegferð er hún til fyrirmyndar.

Hins vegar er engin þjóð eyland í loftslagsmálum. Núverandi og yfirvofandi breytingar á veðurfari plánetunnar þekkja engin landamæri. Á næstu áratugum verður það ekki umflúið að aðlagast loftslagsbreytingum og hér á landi hefur ekki verið unnin heildstæð stefnumótun um slíka aðlögun. Slíkt þarf að gera sem fyrst, ekki aðeins vegna óvissu um áhrif loftslagsbreytinga á mikilvæga innviði landsins, heldur einnig vegna þess að samlegðaráhrif aðlögunar og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda geta verið mikil.

Um miðbik þessarar aldar munu allir jarðarbúar finna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, ýmist beint eða óbeint. Fátækustu þjóðirnar munu finna mest fyrir áhrifunum, einmitt þjóðirnar sem minnsta ábyrgð bera á losuninni.

Það verður aldrei nóg að einblína á áskoranir sem rúmast innan tiltekinna landamæra. Okkur ber siðferðileg skylda til að aðstoða þau sem ekki geta verndað sig fyrir loftslagsbreytingum. Og það er ekki síður mikilvægt verkefni kynslóðanna en markmið um minni losun.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×