Skoðun

Krakkafréttir

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Margt skrýtið býr í hausum fólksins sem heldur til í ysta hægra horni tilverunnar. Hnattræn hlýnun er blekking, Donald Trump er æði, Ísraelar eru ætíð í rétti með öll sín fólskuverk í Palestínu og borgarlínan er hraðbraut til helvítis. Af því bara.

Þessir handhafar sannleikans fóru á háa c-ið nýlega í sameiginlegu móðursýkiskasti yfir Krakkafréttum RÚV. Þar er hvert tækifæri nýtt til þess að eitra huga barnanna okkar; innræta þeim gyðingahatur og ljúga að þeim að Trump sé skrýtinn kjáni.

Hvað nákvæmlega er að því að fréttir eru gerðar börnum aðgengilegar? Í versta falli kennir þessi sakleysislegi dagskrárliður börnum að fylgjast með veröldinni í kringum sig. Velta hlutum fyrir sér, hugsa og spyrja.

Sennilega hatar þetta fólk bara gagnrýna hugsun meira en allt annað.

Krakkar eru engin fífl eins og foreldrar Ara, hvers spurningum var erfitt að svara, geta staðfest. Getur verið að krakkafréttahatararnir nenni einfaldlega ekki að ræða við börnin sín?

Ég og vinir mínir máttum gera okkur „fullorðinsfréttir“ að góðu. Nutum þess samt að foreldrar okkar og kennarar töluðu við okkur og það fyrsta sem okkur var kennt var að trúa aldrei öllu í fréttunum.

Fréttagláp getur tæplega skaðað nokkurt barn. Og þó. Ég var á barnsaldri þegar ég sagði alltaf „Nixon gerði það“ þegar ég var staðinn að skammarstrikum. Kannski tókst vondum vinstri mönnum að heilaþvo mig strax í bernsku? Svona í ljósi þess að Richard Nixon er samkvæmt þeim sem allt vita næstbesti forseti Bandaríkjanna á eftir Donald Trump.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×