Skoðun

Baráttan við snjallsímana

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Fyrir manneskju sem ólst upp við að klifra í stillansum, gera fimleika á húsþökum, teika bíla og leika sér úti fram á nótt er ákveðin áskorun að höndla nútímatækni. Eins og snjallsímar geta verið mikil undratæki þá hef ég blendnar tilfinningar gagnvart þeim.

Mér finnst til dæmis gott að geta séð í símanum hvar strákarnir mínir eru niðurkomnir og hef gaman af að fylgjast með lífi vina minna. Síðan létta mörg snjallforrit eins og Google Maps manni lífið – ég er til dæmis næstum alveg hætt að villast.

Á hinn bóginn vaknar stundum þessi óþægilega tilfinning að ég sé ekki að standa mig á samfélagsmiðlum. Ég næ t.d. engan veginn að óska öllum fésbókarvinum mínum og börnum þeirra til hamingju með afmælið og hin ýmsu afrek.

Mestu áhyggjurnar eru þó vegna snjallsímanotkunar barnanna. Ég fæ á tilfinninguna að einhver hafi skipt á mínum börnum fyrir þessi andlausu börn sem stara á símann. Þau verða eitthvað svo svipbrigðalítil, áhugalaus og fjarlæg. Og mér finnst ég ekki hafa haft minnstu yfirsýn yfir hvað skilaboð eru að móta hugsanir þeirra.

Nú horfi ég fram á betri tíma því Apple var að gefa út nýtt iOS-stýrikerfi fyrir snjalltæki þar sem hægt er að fylgjast með skjánotkun barnanna (vonandi fetar Google í sömu fótspor með Android). Fyrsta skrefið er þó að fylgjast með minni eigin skjánotkun og ég er byrjuð að setja tímamörk á hin og þessi snjallforrit. Ég verð enn jafn hissa þegar skjárinn sýnir mér að ég sé búin með tímann minn en jafnframt fegin að geta sannfært börnin um að það sé gott að setja sér mörk og standa við þau. Það er líka svo frelsandi að slíta sig frá skjánum og vakna aftur til hins raunverulega lífs.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×