Skoðun

Skóla­starf í allra þágu

Hildur Björnsdóttir skrifar

Íslenskt samfélag er í stöðugri þróun. Íbúasamsetning tekur reglulegum breytingum. Hingað flyst fólk af margvíslegum uppruna, bakgrunnurinn fjölbreyttur og tungumálin ólík. Ísland er nú fjölmenningarsamfélag.



Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar eru erlendir ríkisborgarar nú 12% allra landsmanna. Innflytjendur eru jafnframt 18,6% allra starfandi einstaklinga hérlendis. Fólk af erlendum uppruna leggur sitt af mörkum til samfélagsins. Það hefur sannarlega auðgað menningu okkar og fjölbreytileika. Þessu ber að fagna.



Staða barna af erlendum uppruna er síður fagnaðarefni. Börnin mælast 23% lakar í nýlegum PISA-könnunum en börn af innlendum uppruna. Eins nýta börnin síður frístundastyrki til tómstunda- og íþróttaiðkunar en talið er að skipulagt frístundastarf sé mikilvægt svo auka megi tíma barnanna í íslensku málumhverfi.



Hérlendis upplifa börn af erlendum uppruna hvað mesta höfnun innfæddra skólasystkina sinna. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu um PISA könnunina. Samkvæmt niðurstöðunum má ætla að 15 ára ungmenni af fyrstu kynslóð innflytjenda muni eiga erfitt með að uppfylla persónulegar, námslegar og samfélagslegar þarfir sínar hérlendis. Þetta er verulegt áhyggjuefni. Niðurstöðurnar eru vísbending um að gera þurfi betur og bæta þurfi aðlögun barnanna í skólakerfinu.



Samfélagsbreytingar í átt að auknum menningarlegum fjölbreytileika kalla á breytingar í skólastarfi. Við verðum að tryggja börnum af erlendum uppruna þá kennslu og þjónustu sem þeim reynist nauðsynleg. Mikilvægt er að þeim séu veitt skilyrði til að aðlagast samfélaginu og njóta sams konar gæða í menntun og skólastarfi og önnur börn. Þeim þarf að tryggja árangursríka íslenskukennslu og sérstaka aðstoð við félagslega aðlögun.



Á borgarstjórnarfundi næsta þriðjudag mun Sjálfstæðisflokkurinn bera upp tillögu um aðgerðir í þágu barna af erlendum uppruna. Málið er brýnt. Taka þarf stefnumarkandi ákvörðun svo unnt verði að vinna markvisst að jöfnum tækifærum til náms fyrir öll börn í borginni, óháð uppruna.



Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×