Skoðun

Allt í plasti

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Plast þótti einu sinni mikið og merkilegt töfraefni. Tilkoma þess einfaldaði tilveruna og auðveldaði okkur lífið svo mjög að við notum plast í allt. Plastið er svolítið eins og Guð og býr í garðslöngunni og núna líka í glötuninni.

Plastið sem áður var blessun er orðið bölvun og heldur er gamanið farið að kárna þegar plastið hefur myndað risastórt eyland úti á miðju reginhafi, eiginlega stofnað sjálfstæða heimsálfu sem boðar ekkert gott.

Plastið er meira að segja orðið hluti af okkur sjálfum, við erum orðin plast. Við kúkum í það minnsta plasti ef marka má nýjustu rannsóknir. Hvernig útsmogið plastið fór að því að renna svona gersamlega saman við okkur er mér hulin ráðgáta.

Vissulega er löng og rík hefð fyrir því hjá nútímamanninum að éta alls konar rusl en hvergi minnist ég þess að hafa rekist á plast á matseðlum. Mikið furðuverk og flárátt, bölvað plastið.

Hópur hugdjarfs fólks, sennilega væri þó heiðarlegra að kalla það bara hreint út sagt heimskt í bjartsýni sinni, boðaði plastlausan september. Hvernig ætli fólki hafi gengið svona almennt að sniðganga plast í heilan mánuð? Ég sé ekki fyrir mér að geta komist í gegnum plastlausan hálftíma.

Öll verðum við þó að reyna að spyrna við fótum og þá vonandi á gúmmískósólum frekar en úr plasti. Það segir samt sitt um við hverslags ofurefli er að etja þegar græna tunnan sem ég á að setja flokkaða og hreinsaða plastið mitt í er úr plasti!

Og ekki eru nú þeir sem pakka vörum sínum í plast mikið að hjálpa manni að flokka og greina plast frá skárra rusli. Öllum þessum efnum er grautað saman væntanlega til þess að gera flokkunina erfiðari.

Er þetta kannski bara allt í plati?




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×