Skoðun

Verður byltingunni streymt?

Sölvi Blöndal skrifar
Í bók sinni Capitalism, Socialism and Democracy, sem kom út árið 1942, setti austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter fram hugmyndir sínar um skapandi eyðileggingu (e. creative destruction). Hugtakinu var ætlað að lýsa vexti og innri umbreytingu markaðshagkerfis frá samkeppni til einkasölu og aftur til samkeppni. Að mati Schumpeters veltur hagvöxtur til langs tíma á sífelldri endurnýjun framleiðsluferla, oft á kostnað eldri aðferða. Hér nægir að nefna breytingu á samgönguháttum síðustu ár og yfirstandandi breytingar í tækni og hugbúnaðargeiranum sem fáa óraði fyrir. Til dæmis hafa fyrirtæki eins og Facebook, Apple, Amazon, Netflix og Google sótt inn á nýja markaði, oft á kostnað eldri afþreyingar- og tæknifyrirtækja. Til marks um þetta hefur vægi þessara fyrirtækja í bandarísku hlutabréfavísitölunni S&P 500 vaxið úr 5% í 11% á fimm árum.

Afþreyingariðnaðurinn hefur ekki farið varhluta af hinni svokölluðu „skapandi eyðileggingu“. Til dæmis hefur miðlun og sala á tónlist tekið gagngerum breytingum á síðustu árum. Ein af þeim breytingum er sú að sala á tónlist á hljómplötum og geisladiskum hefur á örfáum árum dregist verulega saman. Af þessum sökum nam samdráttur í veltu tónlistar á heimsvísu 40% á árunum 2001-2014. Erlendis hefur samruni útgáfufyrirtækja og niðurskurður í útgáfu á tónlist einkennt tónlistariðnaðinn. Tónlistarhrunið varð seinna á Íslandi. Á árunum 2008-2016 dróst sala hér á landi á upptekinni tónlist saman um 46% að raunvirði. Þannig var jafnvel á tímabili talað um að sala upptekinnar tónlistar tilheyrði fortíðinni.

Stóru tónlistarfyrirtækin voru tiltölulega sein að bregðast við þessari þróun, meðal annars vegna þess að erfiðlega gekk að finna heppilegar leiðir til að bregðast við þeirri þróun sem var að eiga sér stað. Framan af var því fyrst og fremst gripið til lagaúrræða til að stöðva stafræna dreifingu tónlistar en þær aðgerðir voru dæmdar til að mistakast þar sem ólöglegt niðurhal naut vinsælda og tónlistarfyrirtækin gátu ekki boðið neytandanum upp á annan hagkvæman stafrænan valkost.

Árið 2006 bjó sænska fyrirtækið Spotify til viðskiptamódel fyrir bransann sem virkaði. En fyrirtækið var skipað einstaklingum sem áður höfðu starfað í auglýsingamennsku. Módelið kallast streymi, en þar greiðir notandinn fasta upphæð mánaðarlega fyrir afnot af efni og eigandi efnisins fær svo greitt í samræmi við þá notkun. Segja má að módelið sé lýðræðislegt og neytendavænna en eldra módelið sem ekki tók mið af eiginlegri notkun neytandans.

Spotify sló í gegn með þessu viðskiptamódeli og í dag hafa öll stærstu tæknifyrirtæki heims blandað sér í samkeppnina um streymisnotendur. Í dag er fjöldi streymisnotenda á heimsvísu um einn milljarður (fyrir utan YouTube) og vex stöðugt. Á Norðurlöndum hafa 80% fólks á aldrinum 12-65 ára notað að minnsta kosti eina streymisþjónustu. Streymisþjónustan Spotify kom til Íslands árið 2013 og hefur vaxið verulega á örfáum árum. Í dag eru 85 þúsund greiðandi notendur á Íslandi og hefur þeim fjölgað um 75% á liðlega tveimur árum. Ef marka má vinsældir streymis á Norðurlöndum má búast við enn frekari vexti streymis á Íslandi á næstu misserum og árum.

Streymið hefur gerbreytt viðskiptum í tónlistarheiminum til hins betra bæði fyrir tónlistarmenn og útgefendur. Þannig jukust tekjur af sölu tónlistar á heimsvísu árið 2017 um 8% en það er þriðja árið í röð sem tekjur aukast.

Þessi aukning er að mestu leyti tilkomin vegna mikillar aukningar á stafrænni sölu tónlistar alls staðar í heiminum. Þróunin hefur verið með svipuðum hætti á Íslandi, en tekjur af sölu tónlistar byrjuðu að aukast aftur árið 2016 og jukust um 14% að raunvirði árið 2017. Hlutfall stafrænnar sölu tónlistar af heildarsölu nemur nú 77% og hefur aldrei verið hærra.

Eins og oft áður í sögu dægurtónlistar er það unga kynslóðin sem leitt hefur þær breytingar sem orðið hafa. Hlutfallsleg notkun fólks á aldrinum 12-25 ára er margföld miðað við notkun 25 ára og eldri. Á næstu árum má líklega búast við aukinni notkun eldri hópa eftir því sem aðgengi og notendaviðmót einfaldast og verða algengari í notkun.

Fyrr en varir má því gera ráð fyrir því að eldri kynslóðir streymi sínu afþreyingarefni rétt eins og yngri kynslóðir gera í dag. Umbreytingartímabili afþreyingariðnaðarins er ekki lokið en eyðimerkurgangan er að baki og bjartari tímar blasa nú við. Það er því ljóst að Gil Scott Heron hafði rétt fyrir sér, byltingunni verður ekki sjónvarpað, henni verður streymt.



Höfundur er hagfræðingur og stjórnarformaður Öldu Music.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×