Skoðun

Segið af ykkur

Stjórn Uppreisnar og ungliðahreyfingar Viðreisnar. skrifa

Kvenfyrirlitningin, fötlunarfordómarnir og hommahatrið sem sex þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins sýndu þriðjudaginn 20. nóvember s.l. brýtur gegn siðareglum alþingismanna. Uppreisn skorar á Miðflokksmennina Sigmund Davíð Gunnlaugsson, Gunnar Braga Sveinsson, Bergþór Ólason og Önnu Kolbrúnu Árnadóttur ásamt Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni úr Flokki fólksins að segja af sér þingmennsku hið snarasta og biðja viðkomandi sem þau særðu og þjóðina afsökunar.

Í aldanna rás hafa konur þurft að upplifa ofbeldi, kúgun og niðurlægingu af höndum karla og þá sérstaklega valdamikilla karla. Sárt er að horfa upp á þingmenn og fyrrverandi ráðherra kalla kvenkyns þingmenn „húrrandi klikkaða kuntu,“ „helvítis tík“ sem „spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann“ og því miður margt viðurstyggilegt fleira. Þær konur sem þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa dregið í viðbjóðslegt níð eiga að sjálfsögðu ekkert af þessu skilið.

Freyja Haraldsdóttir hefur verið ötul baráttukona fyrir réttindum fatlaðs fólks í mörg ár. Íslenskt samfélag kann henni margt að þakka. Það er með ólíkindum að þingmenn skuli bera hana saman við dýr, þegar þeir eru hinir einu sem sýna fram á vanþróað villidýraeðli.

Í mörgum löndum er hinsegin fólk jaðarsett, útskúfað úr samfélaginu og jafnvel drepið. Ráðamenn Íslands eiga að kappkosta við að búa til samfélag þar sem hinsegin fólki líður vel. Það er hræðilegt að heyra þingmenn tala til þessa hóps á niðrandi máta.

Það er gríðarlega mikilvægt að samfélagsþegnar taki ábyrgð á orðum sínum og þingmenn eru engin undantekning þar á. Nauðgunarmenning, kvenfyrirlitning og fordómar þrífast í samfélagi þar sem einstaklingar komast upp með talsmáta sem þennan án afleiðinga. Það er óásættanlegt að ráðamenn þjóðarinnar tali fyrir feminískum gildum og jafnrétti út á við en grafi undan því í einrúmi.

Þið eruð hluti af vandamálinu. Hvernig ætlið þið að leysa það?

Stjórn Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×