Skoðun

Jólaeftirlitið

María Bjarnadóttir skrifar
Ég þekki börn sem efast um tilvist íslenskra jólasveina. Þetta eru góð og ágætlega uppalin börn, en efasemdarfræ um hina þrettán fráu sveina hefur náð að skjóta rótum í þeirra saklausu jólahjörtum. Ég veit að sjálfsögðu ekki hver á að axla ábyrgð á þessu, en einhver ætti að gera það.

Ég veit fyrir víst að foreldrar þessara barna hafa árlega sætt ágengum yfirheyrslum vegna málsins og hafa í því samhengi bæði haft réttarstöðu grunaðra og vitna. Þau vita að sjálfsögðu ekkert um málið eins og margoft hefur komið fram í skýrslutökum. Þó að stöku mömmur séu að kyssa jólasveina, eru foreldrar ekki í neinu skipulögðu samstarfi við sveinana.

Auðvitað er mjög furðulegt fyrir foreldra að réttlæta fyrir börnum stuðning sinn við að ókunnugir menn sem stunda húsbrot og þjófnað séu að fylgjast með þeim á laun. Það er líka flókið að viðurkenna að foreldri veiti fúslega samþykki fyrir því að sveinarnir haldi yfirlit yfir og meti hegðun barna hvort sem þau eru vakin eða sofin, án andmælaréttar fyrir börnin. Það þarf svo varla að taka fram hversu vafasöm vinnsla jólasveinanna á þessum upplýsingum er í skilningi persónuverndarlaga.

Þó þetta séu réttmætar ábendingar eru þær bara aðeins of Skröggslegar. Það er líka leiðinlegt að það sé verið að efast um trúverðugleika sveinanna út af einhverjum framkvæmdaratriðum eins og ómöguleika varðandi útsendingakerfi skógjafa. Það þarf enginn svona neikvæðni í desem­ber, það er nógu dimmt fyrir. Svo er þetta kerfisbundna eftirlit alveg í fínu lagi. Það er tímabundið í eðli sínu, gætir meðalhófs og stefnir að lögmætu markmiði um að næra jólaandann. Þið megið trúa því.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×