Skoðun

Rafdraumar

Þórarinn Þórarinsson. skrifar
Líf hvers og eins er línulaga saga sem hefst við fæðingu og lýkur með dauðanum. Með alls konar útúrdúrum, endurlitum, áföllum, óvæntum gleðistundum, eftirsjá, bakþönkum og þessu óþolandi „ef ég hefði bara …“.

Í ljósi þessarar sögulegu samfellu er mér meinilla við mót vikna, mánaða og ekki síst ára enda ganga þau fyrst og fremst út á að halda utan um alls konar leiðindi; telja saman daga og reikna á okkur vexti og dráttarvexti.

Sonur minn flutti til Danmerkur 2010 þannig að ég er búinn að sakna hans, með stuttum og stopulum hléum, í átta ár. Vel rúmlega 2.500 daga. Helvíti bratt.

Móðir hans var besti vinur minn löngu áður en hún varð kærastan mín, síðar eiginkona, að lokum fyrrverandi eiginkona og strax að loknum grunnskóla tók hún upp á þeirri skelfingu að gerast skiptinemi í Bandaríkjunum í eitt ár.

Það var langt og erfitt ár enda var þetta í fyrndinni þegar flöskuskeyti, sendibréf og fokdýr millilandasímtöl voru einu leiðirnar til þess að eiga samskipti milli landa.

Strákurinn minn reyndi að hughreysta mig á köldum janúarmorgni fyrir átta árum þegar hann kvaddi með þeim orðum að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur: „We’ll always be together in electric dreams,“ með vísan í titillag 80s-myndar um þunglynda tölvu.

Þó að þú sért órafjarri/ég sé þig sérhvern dag/ég þarf ekki að reyna/ég loka augunum/Við verðum alltaf saman/þó löng sé þessi leið/Við verðum alltaf saman/ saman í rafdraumum. (Þýðing: Gísli Ásgeirsson.)

Enn er þetta huggun harmi gegn og ósköp má maður vera þakklátur fyrir Skype, Facetime, tölvupósta og Facebook-spjallið og allt þetta tölvudót þegar kemur að kveðjustund eftir gott jólafrí.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×