Skoðun

Að berja hausnum við steininn

Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar
Því skyldum við halda áfram að berja hausnum við steininn? Á árunum 2009-2018 námu útflutningstekjur (brúttó) af hvalveiðum að meðaltali tæplega 1,3 milljörðum króna. Veiðarnar stóðu ekki undir sér. Reksturinn skilaði tapi. Ársverk í kringum hvalveiðar eru í kringum 60. Árið 2017 námu útflutningstekjur af ferðaþjónustu 503 milljörðum króna. Gera má ráð fyrir að ársverk í ferðaþjónustu árið 2018 hafi verið um 18.000. Ljóst er að hvalveiðar eru litnar hornauga og jafnvel fordæmdar af stórum hluta heimsbyggðarinnar, enda banna alþjóðasamningar viðskipti við með hvalaafurðir á milli flestra þjóða. Markaðssvæðið er takmarkað við Noreg, Japan og Lýðveldið Palá.

Í nýútkominni skýrslu Hagfræðistofnanna Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða er því haldið fram að engar vísbendingar séu um það að hvalveiðar hafi haft áhrif á straum erlendra ferðamanna til Íslands. Málið er, að það eru heldur engar vísbendingar um það gagnstæða, þar sem engar marktækar rannsóknir hafa farið fram um áhrif hvalveiða á ferðaþjónustu eða aðrar útflutningsgreinar okkar. Við höfum ekki hugmynd um það hvort og þá hvernig hvalveiðar hafa haft áhrif á fjölda ferðamanna, eða það sem mikilvægara er, samsetningu þeirra. Þó held ég að það sé óhætt að fullyrða, að hvalveiðar hafa aldrei haft og munu aldrei hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu. Hvort við Íslendingar hættum, drögum úr eða aukum hvalveiðar, getur því aldrei orðið annað en pólítískt viðfangsefni.

Að við eigum rétt á því að nýta okkar náttúruauðlindir eins og okkur sýnist eru rök sem oft heyrast, en eru fánýt rök. Að hafa rétt á að gera eitthvað, segir okkur ekki endilega að það sé skynsamlegt. Það er hins vegar fullkomlega rökrétt að grípa til þess að bera saman krónur og aura og leyfa þeim útflutningsgreinum okkar sem sannanlega færa okkur hundruð milljarða í útflutningstekjur ár hvert að njóta vafans og stuðla að eflingu þeirra. Í inngangi skýrslunnar er bent á mikilvægi þess fyrir velferð þjóðar að „tryggja hagkvæma nýtingu auðlindanna“. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða, finnst mér skera úr um það að hvalveiðar eru ekki þjóðhagslega hagkvæmar og skipta í raun engu máli í hagkerfinu.

Bjarnheiður Hallsdóttir

Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×