Skoðun

Siðanefndin

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Sjaldgæft er að nefndarstarf fangi athygli almennings. Á þessu eru þó undantekningar, siðanefnd Alþingis er lent í hringiðu umræðunnar, áður en hún hefur tekið til starfa. Reyndar er vandræðagangur Alþingis við að koma málum til siðanefndarinnar algert bíó, hef kveikt á Alþingisrásinni, kók og popp með.

En hvert er hlutverk og tilgangur siðanefndarinnar? Hún hefur ekkert vald til að gera eitt eða neitt, eina sem hún á að gera er að taka afstöðu til þess hvort þingmenn hagi sér siðlega. En fyrir hvern er sú niðurstaða fengin?

Er það virkilega svo að kjósendur þurfi sérstaka fræðinganefnd til að finna út úr því hvort t.d. siðlaust fyllirísraus þingmanna á bar sé siðlaust eða ekki? Ég held að almenningur sé fullfær um að leggja mat á siðferði þingmanna og láta skoðun sína í ljós í kosningum. Þetta er hluti af því sem í daglegu tali er kallað lýðræði og það þarf enga nefnd á vegum Alþingis til að útskýra siðferði fyrir almenningi. Siðferði sérfræðinganna er hvorki dýpra né merkilegra en siðferðisvitund almennings.

En það verður samt spennandi að fylgjast með störfum siðanefndarinnar. Mun hún t.d. komast að þeirri niðurstöðu að almennt séð hafi Klausturstalið verið ósiðlegt eða mun nefndin fara yfir einstök ummæli og meta þau sérstaklega? Þetta skiptir máli því nú liggur fyrir krafa um að siðanefndin taki á því hvort þingmenn Pírata megi þjófkenna aðra þingmenn, má segja þjófur? Kannski birtir nefndin lista yfir þau orð sem þingmenn mega ekki nota hverjir um aðra á opinberum vettvangi.

Það yrði áhugavert.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×