Skoðun

Stúdentar mega ekki hafa það gott

Elísabet Brynjarsdóttir skrifar
Á síðasta ári fór Stúdentaráð Háskóla Íslands af stað með verkefni í samstarfi við Reykjavíkurborg og Íbúa ses. Verkefnið nefndist Háskólinn okkar og snerist í stuttu máli um að auka lýðræðislega þátttöku innan veggja Háskólans í málefnum stúdenta og að gera hagsmunabaráttu stúdenta aðgengilegri og gagnsærri.

Meginmarkmið okkar með því verkefni var að efla stúdenta í hagsmunabaráttu sem varðar okkur öll, hvetja til lýðræðislegrar þátttöku, tengja stúdenta saman á vettvangi þar sem hægt er að rökræða málefni og forgangsraða þeim. Allt er þetta í þágu stúdenta með það að leiðarljósi að bæta háskólann og umhverfi okkar. Með þessu vonaðist Stúdentaráð sömuleiðis til að standa fyrir aðgengilegri hagsmunabaráttu.

Verkefnið Ódýrara að lifa sem námsmaður var sigur úr býtum og næst kom Lánasjóðurinn okkar - raunverulegur stuðningur við nemendur. Þessi tvö málefni tengjast óneitanlega, þar sem takmörkuð framfærsla lánasjóðsins og skerðing frítekjumarksins hefur áhrif á lífsgæði okkar og því viljum við umhverfi þar sem er ódýrara að vera námsmaður, til dæmis með sérstökum afsláttum fyrir stúdenta.

Stúdentaráð lagði því af stað í mikla undirbúningsvinnu. Ákveðið var að einblína á úthlutunarreglur Lánasjóðsins, þar sem þeim er breytt árlega og við höfum þar raunverulegt tækifæri til áhrifa. Leitast var eftir samstarfi við Landsamtök íslenskra stúdenta (LÍS) þar sem þetta er málefni sem snertir alla stúdenta Íslands. Herferðin er því farin fyrir hönd allra stúdenta Íslands undir formerkjum LÍS.

Herferðin sem fer nú af stað snýst um að hækka frítekjumarkið, sem myndi valda minni skerðingu á framfærslu námsmanna, og því að framfærslan hækki. Þetta eru gífurlegir hagsmunir stúdenta sem eru að veði hér, þar sem raunverulegur fjárhagslegur stuðningur gerir stúdentum kleift að eyða tíma í lærdóm og menntun. Við skulum heldur ekki gleyma því að þetta eru lán, sem stúdentar þurfa að borga til baka. Það mætti halda að miðað við uppbyggingu sjóðsins að stúdentar megi ekki hafa það gott. Stúdentar mega ekki fá lán sem myndi raunverulega framfleyta þeim. Lán, sem er borgað til baka. Stúdentar þurfa að velja á milli þess að læra eða lifa.

Það er kominn tími til breytinga.

Fyrir hönd Stúdentaráðs,

Elísabet Brynjarsdóttir

Forseti Stúdentaráðs

Þessi grein er hluti af greinaröð herferðar Landssamtaka íslenskra stúdenta um bættan Lánasjóð íslenskra námsmanna. Berjumst saman fyrir #betraLÍN




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×