Skoðun

Uss!

Haukur Örn Birgisson skrifar
Tilkynnið meiðandi eða móðgandi ummæli, sem falla á netinu, í eigin persónu eða í rituðu máli, því hatur verður ekki umborið í Suður-Yorkshire,“ segir í nýlegri auglýsingu frá lögreglunni þar á bæ.

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja. Það er dottið úr tísku. Á hverjum degi koma fram nýjar kröfur um að tiltekin ummæli skuli ekki látin viðgangast. Lög eru sett þar sem tilteknir hópar samfélagsins fá vernd gegn ummælum sem beinast að þeim. Vitleysan stoppar ekki við að tiltekin tegund ummæla sé gerð refsiverð, því lögreglan mun nú einnig þurfa að verja tíma sínum í að rannsaka móðganir.

Flest sprettur þetta frá fólki með góðan vilja, sem vill ekki að neinn særist vegna ummæla annarra. Málið er bara ekki svo einfalt. Tilgangurinn helgar ekki meðalið.

Í bandarískum háskólum (reyndar einnig HR) keppast viðkvæmir nemendur við að fá kennara með vondar skoðanir rekna frá skólunum. Umdeildir fyrirlesarar eru stöðvaðir við upphaf málþinga. Skemmtikraftar undirrita yfirlýsingar um að þeir muni ekki segja brandara sem gætu móðgað tiltekna áhorfendur. Allt í nafni umburðarlyndis og frjálslyndis. Það gleymist að það er ekkert frjálslynt við að banna brandara, þótt flestum finnist þeir ekki fyndir. Það er ekki til hlutlægur mælikvarði á húmor.

Það verður alltaf til ókurteist, vont og ófyndið fólk. Einnig fólk með fráleitar skoðanir. Það má samt ekki banna fólki að segja ljóta hluti. Engar af verstu hugmyndum mannkynssögunnar hurfu úr umræðunni, vegna þess að þær voru bannaðar. Þvert á móti. Hvort sem fólk er heimskt, vont, dónalegt eða með vondan húmor – þá verður það að fá að tjá sig. Jafnvel þótt aðrir kunni að særast vegna þeirra. Það er verðmiði frjáls samfélags.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×