Skoðun

Fátækt fólk

María Bjarnadóttir skrifar
Ég hugsa fallega til fólksins sem stendur í kjarasamningastússi um þessar mundir. Þetta er örugglega mjög vanþakklátt starf að sinna þó að við endamarkið séu í boði bætt lífskjör fyrir almenning, stöðugleiki fyrir hagkerfið og vöfflur með rjóma fyrir samningafólkið. Ferlið hlýtur að vera ansi lýjandi fyrir þau sem standa samningavaktina. Allir þessir samningafundir og undirbúningur afstöðu. Rýna í tillögur mótaðila og meta hvernig tillögur ríkisvaldsins hafa áhrif á kröfugerð. Vonir og væntingar félagsmanna á bakinu. Þetta er alveg svolítið puð þó það sé ekkert færiband með fisk á við samningaborðið.

Ég fann allavega að ég var aðeins orðin lúin á þessu í gær þegar ég renndi niður í Öxnadalinn og hef þó enga aðkomu að málinu aðra en að fylgjast með fréttum með ómarkvissum hætti. Það er nútíma lúxus að finna fyrir trausti til aðila vinnumarkaðarins um að þau muni komast að lausn sem gætir að réttindum verkafólks og stuðlar um leið að stöðugleika í hagkerfinu. Verandi á söguslóðum bókarinnar Fátækt fólk varð mér hugsað til frásagna Tryggva Emilssonar af kjörum og veruleika verkafólks á Íslandi snemma á síðustu öld. Reyndar hef ég aldrei lesið bókina alla. Óréttlætið og örbirgðin sem þar er lýst er svo yfirþyrmandi að ég hef aldrei komist lengra en þegar kaupmaðurinn tók af þeim kúna upp í skuld.

Það eru magnaðar framfarir sem íslenskt samfélag hefur tekið síðan Tryggvi missti móður sína og var komið fyrir hjá ókunnugum barn að aldri. Framfarirnar hafa ekki bara verið í tækni eða hagvexti, heldur líka í mikilvægum félagslegum innviðum sem gera það að verkum að veruleikinn sem Tryggvi lýsti tilheyrir sögunni. Ég treysti kjarasamningafólkinu okkar allra til þess að gæta þess að þannig verði það áfram.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×