Skoðun

Stórsóknarfórn

Óttar Guðmundsson skrifar
Ég fylgdist sem ungur drengur með baráttu Dagsbrúnarmanna fyrir bættum kjörum. Í verkfallinu 1955 smurði ég brauð ásamt foreldrum mínum handa verkafólkinu í eldlínunni.

Verkalýðsbarátta fyrri ára fylgdi reyndar hefðbundnu mynstri. Verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík hafði forystu um verkfallsboðun. Samtök iðnaðarmanna og verslunarmannafélögin drógu lappirnar. Félög opinberra starfsmanna og háskólamanna biðu átekta. Kjör hinna lægstlaunuðu voru sem fyrr heitasta baráttumálið.

Eftir ströng verkföll Dagsbrúnarmanna og nokkurra annarra stéttarfélaga var samið um kauphækkun. Þá fór af stað mikil skriða launahækkana allra þeirra sem höfðu setið hjá. Eftir nokkurt þref var samið við önnur félög og launamunurinn í samfélaginu hélst óbreyttur. Launahækkun hinna lægstlaunuðu hvarf snarlega á verðbólgubálið og allt var sem fyrr. Þetta kölluðu alvarlegir en gáfulegir hagfræðingar víxláhrif kaupgjalds og verðlags.

Það er ekki að ófyrirsynju að Megas orti um launabaráttu fyrri aldar: „Gakktu í Dagsbrún og gamna þér við, / að geta uppá næstu stórsóknarfórn, / hjá Gvendi, / hvaða Gvendi, / stórsóknarfórn hjá Gvendi Jaka.“

Sigur alþýðunnar fólst í blóðugum fórnum Dagsbrúnarmanna sem komu uppmælingaraðlinum til góða. Orðið stórsóknarfórn var valið eitt besta nýyrði 20. aldarinnar enda sorglega lýsandi fyrir baráttu verkalýðsfélaganna.

Nú er enn á ný blásið til stórsóknarfórnar með slagorðum og baráttumálum frá árinu 1955. Menn ætla að hækka laun hinna lægstlaunuðu með blóðugum verkfallsaðgerðum. Stundum finnst mér ég vera staddur í tímavél.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×