Skoðun

Óþarfa lagabreyting um eitt leyfisbréf

Guðríður Arnardóttir skrifar
Fyrir Alþingi liggur nú fyrir frumvarp til breytinga á lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Helstu rökin fyrir lagabreytingunni eru þau að ákvæði núgildandi laga sem heimila kennurum að kenna sitt sérsvið á aðliggjandi skólastigi hafi aldrei komið til framkvæmda og lagabreytingu þurfi til að tryggja þessum kennurum starfsöryggi og rétta launasetningu.

Í 21. grein núgildandi laga nr. 87/2008 segir:

1. Leyfisbréf grunnskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu yngri barna veitir honum heimild til kennslu elstu aldursflokka í leikskólum. 

2. Leyfisbréf leikskólakennara sem sérhæft hefur sig í kennslu eldri barna veitir honum heimild til kennslu í 1.–3. bekkjum grunnskóla. 

3. Leyfisbréf framhaldsskólakennara veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í 8.–10. bekkjum grunnskóla. 

4. Leyfisbréf grunnskólakennara sem lokið hefur a.m.k. 120 námseininga sérmenntun í kennslugrein veitir honum heimild til kennslu á sérsviði sínu í byrjunaráföngum framhaldsskóla.

Umboðsmaður Alþingis hefur ályktað um gildi greinarinnar á þann veg að kennarar sem uppfylla menntunarskilyrði 21. greinarinnar séu jafn réttháir þegar kemur að ráðningu til kennslu á aðliggjandi skólastigi, þá má fastráða og þannig tryggja þeim starfsöryggi. Félag framhaldsskólakennara hefur auk þess látið vinna lögfræðiálit um gildi greinarinnar og er niðurstaða þess álits sú sama.

Á það hefur verið réttilega bent að launasetning er viðfangsefni kjarasamninga og lítið mál og einfalt að skrifa í kjarasamninga jafnlaunasetningu kennara á öllum skólastigum. Það hefur félag framhaldsskólakennara reyndar þegar gert í kjarasamningi við Fjölmennt, þar sem leyfisbréf til kennslu óháð skólastigi gildir jafnt við launasetningu.

Eitt leyfisbréf kennara á öllum skólastigum mun draga úr sérhæfingu kennara. Auk þess koma framhaldsskólakennarar inn í kennarastarfið á öðrum forsendum en leik- og grunnskólakennarar, flestir framhaldsskólakennarar mennta sig í tilteknum greinum út frá áhugasviði og langflestir leggja fyrir sig kennslu eftir að hafa lokið grunngráðu í bók- eða verkgreinum.

Ég biðla til Alþingis að knýja ekki fram svo róttæka lagabreytingu algjörlega þvert gegn vilja heillar starfsstéttar, þeirra kennara sem best þekkja innviði framhaldsskólans og menntun framhaldsskólakennara. Fulltrúar framhaldsskólakennara sem og háskólasamfélagið sem sér um menntun framhaldsskólakennara hefur varað eindregið við frumvarpinu og ákvæði þess um eitt leyfisbréf til kennslu umræddra skólastiga.

Væri ekki bara ágæt lending að fresta þessum breytingum og láta loksins reyna á 21. grein gildandi laga um menntun kennara og að forystufólk kennara semji bara um jafnlaunasetningu í yfirstandandi kjarasamningagerð? Við framhaldsskólakennarar erum alveg til í það og teljum það grundvöll að sátt og faglegra skólastarfi.

Höfundur er formaður Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×