Skoðun

Flýtimeðferð

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Íslendingar trúa því að þeir séu sérstakir átaksmenn, afkastamiklir akkorðsmenn; oft er vísað í vertíðarstemminguna. En stenst þetta, hvað gerum við þegar mikið liggur við?

Við byrjum á því að opna samráðsgátt, sem er höfð opin í mánuð eða tvo. Það er lýðræðislegt. Og samhliða, eða nokkrum mánuðum seinna (sem er nánast það sama), er skipaður vinnuhópur til þess að fara yfir það sem barst í samráðsgáttina. Þegar vinnuhópurinn hefur eftir 4-6 vikur skilað til rýnihóps er málið yfirleitt komið á borð nefndar áður en mjög langt um líður (óræð tímamæling).

Þegar nefndin hefur starfað í hálft ár eða svo kemst hún að því – oftast kengbogin í krísu – að hún hefur ekki nægar valdheimildir. Bíður hún þá um sinn til þess að athuga hvort valdheimildirnar detti ekki af himnum ofan. Það gerist ekki – fyrir því er reynsla. Því þarf ráðherra að skerast í leikinn og auka valdheimildir nefndarinnar. Það gerir ráðherra ekki fyrr en eftir að í honum hefur verið djöflast í hálfan mánuð eða svo (eftir að í hann næst), en það tekur ekki minna en tíu daga að finna ráðherra.

Ráðherrann eykur þá valdheimildir og gefur nefndinni aukið svigrúm til starfa. Það lukkast vel og nefndin skilar áliti – og tillögum ef minnisblað ráðherra gaf slík fyrirmæli. Þegar niðurstöðum hefur verið vísað til þeirrar stofnunar sem á að sinna mikilvæga málinu þá kemur oftar en ekki í ljós – eftir mánuð eða svo – að stofnunina skortir fé til þess að hrinda því í framkvæmd sem nefndin lagði til.

Þá er að bíða þess að ný fjárlög komi, ári seinna, til afgreiðslu Alþingis. Það er engu logið með eljuna! Íslendingar eru vertíðarmenn!




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×