Skoðun

Ríkisjarðir

Davíð Stefánsson skrifar
Haraldur Benediktsson, fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis, vakti nýlega máls á mikilvægu atriði skynsamlegrar byggðafestu þegar hann hvatti til stórátaks í sölu ríkisjarða. Haraldur, sem er bóndi undir Akrafjalli og fyrrverandi formaður Bændasamtakanna, er einn af landsbyggðarþingmönnum Sjálfstæðisflokksins og í fjárlaganefnd Alþingis.

Hann hvetur til umræðu um eignarhald á venjulegum bújörðum og bendir á að íslenska ríkið sé stærsti einstaki eigandi þeirra. „Það færi vel á því að hefja nú átak í sölu ríkisjarða undir merkjum nýrrar stefnu í eignarhaldi á bújörðum. Stefnu sem styrkir byggð og búsetu, því blómlegar byggðir eru helsta aðdráttarafl landsins,“ segir hann.

Jarðir í eigu ríkisins eru um 450 talsins. Þar af eru um 300 bújarðir, flestar í ábúð en einhverjar eru eyðijarðir. Þetta víðtæka eignarhald ríkisins á bújörðum á sér margar ólíkar skýringar. Brugðist var við miklum erfiðleikum í landbúnaði með því að ríkisvaldið yfirtók jarðir. En af hverju að hefja stórátak í sölu ríkisjarða?

Flestir hljóta að vera sammála um að ríkið eigi ekki að vera stærsti eigandi bújarða á Íslandi. Það eru engin skynsamleg rök fyrir að svo eigi að vera. Ekki frekar en að ríkið eigi verslunarhúsnæði í stórum stíl til útleigu. Aukinheldur ætti að takmarka sem mest atvinnurekstur ríkisvaldsins, hvort sem það er búrekstur eða útleiga jarða til landbúnaðar.

Þetta er einfaldlega ekki hlutverk ríkisins. Nóg er nú samt. Verði af slíku átaki í sölu ríkisjarða þarf að tryggja að ekki verði gengið á núverandi ábúendur eða leigutaka og til þeirra verði leitað fyrst varðandi sölu. Til að flækja þetta hafa nálæg bú á stundum nytjar af ríkisjörðum.

Að sama skapi þarf að tryggja að markaður með jarðir raskist ekki um of. Hagsmunir margra fjölskyldna er undir. Menn skyldu ætla sér tíma til sölu þessara jarða. Það kunna síðan að vera eðlileg rök fyrir því að ríkisvaldið eigi áfram jarðir sem það hefur mikla hagsmuni af. En það á ekki við um bróðurpart ríkisjarða. Það er ólíklegt að í mörgum þessara jarða felist einhver gríðarleg verðmæti. En hugsanlega er hægt að sammælast um slíkt átak gangi söluandvirðið til varnar hinum dreifðu byggðum.

Það er staðreynd að samfélög í hinum dreifðu byggðum eiga sum hver mjög undir högg að sækja þar sem fækkun íbúa leiðir til þess að erfiðara verður að halda uppi grunnþjónustu. Landbúnaður heldur byggðarlögum í ábúð. Það viljum við flest. Umræða um sölu ríkisjarða er ekki ný af nálinni. En þessum tillögum Haraldar Benediktssonar ber að fagna. Þetta eru orð í tíma töluð. Hann hefur sagt að nú sé meiri pólitískur stuðningur en áður við að búa til lagaumgjörð með þeim hætti að eignarhald jarða til byggðafestu. Þar verður hlutur ríkisins að minnka.

Nú er að hefjast handa Haraldur.


Tengdar fréttir




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×