Skoðun

Tvö skref til baka

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Boris, nýr forsætisráðherra Breta, slær mig frekar illa. Af sögu hans og ummælum að dæma virðist hann vera af kynslóð hinna óhæfu sem núna sest í valdastóla heims. Það er kannski ekki alveg út í bláinn sem fólk veltir fyrir sér orsakasambandi þess að fara með pólitísk völd heimsins og að vera með lélegt gult hár.

Ég var í hópi þeirra sem upplifðu það sem algjört slys þegar Trump sigraði Clinton. Trúði því aldrei að þannig gæti farið þó að tölurnar segðu annað. Það nálgaðist áfall að sjá hann sem forseta. Forsetatíð hans hefur reynst standa fyllilega undir væntingum um frammistöðu og ummæli. En auðvitað var sigurinn ekki skyndilegt slys. Sigurinn átti sér aðdraganda og kosningabaráttan var gegn sterkum frambjóðanda demókrata. Álitsgjafar og fjölmiðlar brostu að barnalegum fullyrðingum og einföldum línum og niðurstaðan varð að línurnar sigruðu staðreyndir. Og nú er allt eins líklegt að hann verði endurkjörinn, aftur með því að boða ljóta heimsmynd sem ekki stenst skoðun.

Það var heldur ekki alveg á einni nóttu sem Bretar fengu Boris, sem öfugt við Trump þykir stundum sniðugur. Lykillinn að árangri hans virðist byggja á sömu formúlu, á línum og frösum sem staðreyndir virðast illa bíta á, fyrir utan að vera með sama hárskerann og klæðskera með skerta rýmisgreind. Trump sem forseti á eftir Obama var sögulegt bakslag og sýnir að sagan og framþróun er ekki alltaf bein lína heldur stundum hlykkjóttur vegur. Eitt skref áfram og tvö til baka. Með Trump voru skrefin til baka að vísu umtalsvert fleiri. Sigur þessara tveggja manna, og fleiri raunar, undirstrikar rækilega mikilvægi þess að staðreyndir fái vægi í umræðunni. Það á líka við um Ísland.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×