Skoðun

Í siðuðum samfélögum

Þorbjörg Gunnlaugsdóttir skrifar
Ég trúi á reglu, venju og vana. Sumt er bara eins og það er. Hver og ein sósa á til dæmis ýmist heima undir eða yfir pylsunni samkvæmt fastmótaðri hefð. Um daginn varð ég samt fyrir því að fá pylsu þar sem sinnepið var undir. Verandi vönduð (og íslensk) tók ég ekki samtalið en hugsaði mitt. Sinnepið undir er auðvitað hreint og klárt siðrof. Síðan hefur hugurinn eðlilega verið við spurninguna: „Hvað næst?“ Mitt framlag í þágu reglu, venju og hins siðaða samfélags er þess vegna eftirfarandi:

1. Flugvellir. Öryggisleit á flugvöllum er alltaf eins. Alltaf. Fólk sem fattar fremst í röðinni að það er með tölvu á botni töskunnar og öll önnur hugsanleg raftæki og tösku stútfulla af drykkjum, sem það þarf að drekka úr við öryggishliðið, á að vera í farbanni.

2. Sundlaugar. Ef það eru margir skápar lausir í klefanum ekki velja skáp við hliðina á næstu manneskju.

3. Ísbúð. Siðað fólk veit hvernig ís/bragðaref það vill. Ekki byrja fyrst að hugsa málið þegar komið er að þér eða spyrja um alla valkosti með hálftíma röð fyrir aftan þig.

4. Fundir. Það er óskiljanlegt að bjóða upp á kaffi og sykur en ekki mjólk. Enginn notar sykur.

5. Ráðstefnur. Ef þú varst ekki beðinn um að halda erindi eða sitja í pallborði ekki þá halda fyrirlestur úr sal (hæ, hálf lögmannastéttin).

6. Almenn virðing á heimilum. Eiga súkkulaði handa konum með tíðir.

7. Þvaglát. Ef þú pissar eins og garðúðari ekki nota almenningssalerni.

8. Að lokum er hjartans mál sem ég gef mér að ný stjórnarskrá hljóti að taka á: Ekki segja öðrum hvað þig dreymdi í nótt.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×