Skoðun

Til hamingju, Áslaug

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengið verið gagnrýndur fyrir að veita konum ekki nægjanlegt brautargengi. Sú gagnrýni átti nokkurn rétt á sér. Samt er það svo að fyrsta konan til að gegna ráðherraembætti á Íslandi og embætti borgarstjóra var frú Auður Auðuns, þingmaður og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. En án nokkurs vafa hafa hlutirnir verið að breytast og í formannstíð Bjarna Benediktssonar hafa verið stigin stór skref í rétta átt.

Frá árinu 2013, þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór í ríkisstjórn, hafa konur gegnt embætti varaformanns og ritara flokksins, þingflokksformennskan og forsæti þingsins hefur verið í höndum kvenna og fjöldi kvenna hefur gegnt stöðu ráðherra á þessum árum. Vitanlega er enn nokkuð í land, eins og staðan er reyndar á fleiri bæjum í pólitíkinni, en þetta er sannarlega í rétta átt.

Mikilvægt skref var stigið í gær þegar Áslaug Arna var gerð að ráðherra. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún sannað fyrir þjóðinni að hún er reiðubúin að takast á við flókin viðfangsefni, hefur m.a. verið í forystusveit Sjálfstæðisflokksins ásamt því að vera formaður utanríkismálanefndar Alþings.

En aldur hennar er eftirtektarverður, hún er yngsti ráðherrann á lýðveldistímanum. Það er til fyrirmyndar hversu vel Sjálfstæðisflokkurinn treystir ungum konum. Næstyngsti ráðherrann er Þórdís Kolbrún og hún er jafnframt varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Hvorki Áslaug né Þórdís eiga frama sinn aldri sínum eða kyni að þakka. Þær hafa báðar sýnt og sannað að þær eru mjög hæfar og flinkir stjórnmálamenn og þess vegna eru þær ráðherrar.

Til hamingju, Áslaug, ég er þess viss að þú eigir eftir að starfa landi og þjóð til mikilla heilla.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×