Skoðun

Hugsað í lausnum

Jóna Hrönn Bolladóttir skrifar
Fyrir skömmu jarðaði ég góðan vin, Vilmund Þorsteinsson, 94 ára að aldri. Ég fylltist alltaf gleði þegar ég mætti honum því hann ljómaði eins og sól í heiði og kankvís svipur bar vitni um þolgæði, jákvæðni og glettni.

Ég kynntist honum þegar ég jarðsöng Gunnhildi Friðriksdóttur eiginkonu hans sem hann hlúði að, ekki síst í veikindum hennar. Síðustu árin hef ég oft hugsað til Vilmundar þegar ég leggst í sjálfsvorkunn. Því hann var maður sem aldrei dvaldi við hindranir en fann alltaf leiðir. Það er ótrúleg sagan af honum þegar hann hljóp 17 ára gamall á miðri aðventu yfir fjöll og dali frá Brekknakoti í Þistilfirði til Húsavíkur til þess að taka bílprófið sitt. Þetta voru 140 km sem hann fór og náði á réttum tíma. 88 ára að aldri þurfti hann nauðsynlega að komast í mjaðmaskiptaaðgerð og við ræddum hvort hann fengi slíka þjónustu vegna kennitölunnar hans, enda fæddur 1925. En hann taldi miklu betra fyrir þjóðfélagið að halda honum á fótum en að setja hann inn á einhverja stofnun.

Þegar hann hitti lækninn kom enda í ljós að hann var svo vel á sig kominn að hann fékk að fara í aðgerð á báðum mjöðmum með árs millibili. Var lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig Vilmundur tók ábyrgð á eigin heilsu. Strax á sjúkrahótelinu eftir aðgerðina hafði hann þann háttinn á að skokka upp og niður stigana frekar en að notast við lyftu til þess að liðka sig. Kominn heim gekk hann um allt hverfið í Garðabænum og þar eð hann bjó á einni hæð fékk hann sér málningartröppur og stillti þeim upp á miðju stofugólfi til þess að geta reynt á sig og æft ganginn. Talandi um fólk sem hugsar í lausnum!




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×