Skoðun

Athugasemd vegna ummæla Jóns Steinars Gunnlaugssonar um dómara Landsréttar

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Með dómi Landsréttar í máli nr. 532/2018, uppkveðnum 22. nóvember 2019, var Jón Steinar Gunnlaugsson sýknaður af kröfum umbjóðanda míns Benedikts Bogasonar og málskostnaður felldur niður.



Í viðtali við mbl.is í kjölfar dómsins sagði Jón Steinar að dómarar Landsréttar hafi greinilega haft vilja til þess að gera umbjóðanda mínum til geðs og þeir hafi verið vilhallir honum. Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu 25. nóvember 2019 sagði Jón Steinar síðan að hagsmuna- og kunningjatengsl dómara málsins við umbjóðanda minn hafi ráðið því að málskostnaður í málinu var felldur niður og með því hafi dómararnir brugðist hlutleysisskyldu sinni og enginn annar íslenskur borgari hefði notið þessara sætinda af borði dómaranna við sömu aðstæður. Þessi ummæli voru síðan endurbirt í frétt í netmiðli Fréttablaðsins.

Það er kunnulegt stef að þegar Jón Steinar tapar dómsmáli eða niðurstaðan er honum ekki þóknanleg þá ræðst hann á dómara málsins og fullyrðir að þeir hafi verið hlutdrægir og annarleg sjónarmið hafi ráðið niðurstöðu málsins. Það er hins vegar alveg nýtt að Jón Steinar haldi því fram að dómararnir hafi verið hlutdrægir í máli sem hann vinnur. Fyrir þeim aðdróttunum er engin innistæða en ekkert við málsmeðferð Landsréttar gaf Jóni Steinari tilefni til þess að vega með þessum hætti að dómurum málsins.

Við dómsuppsögu í Landsrétti, föstudaginn 22. nóvember sl., voru kveðnir upp dómar í sjö einkamálum. Í þremur þessara mála var málskostnaður felldur niður. Það er því af og frá að dómarar Landsréttar hafi lagt einhverja sérstaka lykkju á leið sína til þess að beita Jón Steinar órétti. Svo var ekki heldur var niðurstaðan um niðurfellingu málskostnaðar rökstudd með vísan til þess að orðfæri Jóns Steinars í umrætt skipti hafi verið með þeim hætti að það réttlætti málssókn.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×