Innlent

Lögreglan varar við stolnum klippikortum frá Löðri

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan leitar nú upplýsinga um innbrotið.
Lögreglan leitar nú upplýsinga um innbrotið. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti fyrr í dag færslu á Facebook-síðu sinni þar sem fram kemur að í aðdraganda jóla hafi verið brotist inn í bílaþvottastöðina Löður að Fiskislóð á Granda. Þar hafi klippikortum sem gilda í stöðina verið stolið og er fólk varað við því að kaupa slík kort hjá öðrum en stöðinni sjálfri.

„Lögreglan vill koma því á framfæri að klippikortin eru númeruð og hafa starfsmenn Löðurs yfirsýn yfir seld kort og óseld kort. Ef fólk vill ekki kaupa köttinn í sekknum er fólki bent á að versla aðeins slíkt kort beint af starfsfólki Löðurs. Öll kort á válistanum hafa verið gerð ógild,“ segir í færslu lögreglunnar.

Þá biður lögregla hvern sem kann að hafa upplýsingar um innbrotið eða hefur verið boðin þvottakort frá Löðri til kaups að hafa samband við lögreglu í netfangið [email protected] eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu embættisins.

Þá birti lögreglan einnig lista með númerum hinna stolnu klippikorta, en listann má sjá hér að neðan.

Listi yfir kortanúmer hinna stolnu korta.LRH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×