Innlent

Segir „taugaveikluðum“ Fram­sóknar­mönnum að róa sig

Árni Sæberg skrifar
Jón gefur lítið fyrir fullyrðingar Ásmundar Einars.
Jón gefur lítið fyrir fullyrðingar Ásmundar Einars. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson, fulltrúi ráðherra í matvælaráðuneytinu, segir fullyrðingar barna- og menntamálaráðherra, um að Bjarni Benediktsson hafi staðið fjármögnun ráðgjafar-og greiningarmiðstöð barna fyrir þrifum, vera til marks um taugaveiklun Framsóknarmanna.

„Enn og aftur standast fullyrðingar framsóknarmanna enga skoðun. Alþingi hefur nýverið afgreitt fjárlög sem allir þingmenn Framsóknar samþykktu. Það er Alþingi sem hefur fjárveitingavaldið en ekki fjármálaráðherra. Skilningsleysi Ásmundar eða kannski frekar tilraunir til blekkingar breyta engu þar um,“ segir Jón í færslu á Facebook.

Sagði Sigurð Inga ætla að bjarga greiningarmiðstöðinni

Tilefnið er frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi, þar sem Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, sagði skilningsleysi fyrrverandi fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafa komið í veg fyrir að ráðgjafar-og greiningarmiðstöð barna hafi fengið nægt fjármagn til að sinna þjónustu sinni að fullu. Núverandi fjármálaráðherra ætli að taka á málinu.

Birtingarmynd ábyrgðarleysis Framsóknarmanna

Jón segir þó ekki nýlundu að núverandi fjármálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sé tilbúinn að sólunda fé án heimilda frá Alþingi og því megi leiða líkum að því að hér sé enn ein birtingarmynd ábyrgðarleysis Framsóknarmanna á ferðinni.

„Við þekkjum vel dæmin um hvernig núverandi fjármálaráðherra hunsaði vilja þingsins gagnvart samgönguáætlun á 7 ára ferli sínum sem ráðherra samgöngumála. Þar var sólundað með fé og forgangsraðað verkefnum án þess að sækja heimildir fyrir því til Alþingis. Það er skýringin á miklum seinkunum á öðrum forgangsverkefnum víða um land. Ég segi við Ásmund og aðra framsóknarmenn í taugveiklun þeirra, róa sig og líttu þér nær.“


Tengdar fréttir

Ráðgjafar- og greiningarstöð fjársvelt meðan ásókn í þjónustu eykst

Ráðgjafar-og greiningarstöð vantar allt tvö hundruð og fimmtíu milljónir í fjárveitingar til að geta staðið undir lögbundinni þjónustu að sögn forstjóra. Tilvísanir hafi aukist um 60 prósent síðustu ár á meðan hafi fjárveitingar verið skornar niður á fjárlögum. Verði ekki breyting þurfi stofnunin að skera niður þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×