Skoðun

Hvernig ég lærði um gosið í Vestmannaeyjum

Matthildur Björnsdóttir skrifar

Það er eins og það hafi verið í gær. Ég bjó í smáíbúð í kjallara í Skipasundi 80 sem Albert heitinn Guðmundsson alþingismaður átti efri hæðirnar af, og sem hafði leigt þau húsakynni fyrir skóladagheimilið sem var rétt nýstofnað. Trúlega það fyrsta á Íslandi.

Ég var barnshafandi, komin langt á leið og þetta var nokkuð snemma um morgunn. Svo hringdi dyrabjallan. Það var hún Hólmfríður sem var stjórnandi skóladagheimilisins uppi. Hún sagði mér frá gosinu sem hafði byrjað í Vestmannaeyjum.

Hólmfríður spurði mig svo hvort hún mætti koma með krakkana niður til að sjá útsendinguna sem yrði um það í sjónvarpinu, og það var löngu áður en sjónvarpið var vant að koma á.

Auðvitað sagði ég já, og þau komu öll niður blessuð börnin, og voru algerir englar í litlu stofunni minni, þar sem þau sátu á gólfinu í stofunni og horfðu dolfallin á það sem var á skjánum.

Ég var í raun sjokkeruð að heyra um gosið, af því að ég hafði komið til Vestmannaeyja nokkrum árum áður til að heimsækja fjölskylduvini og gengið á það fjall í einni af þeim heimsóknum og átti alls ekki von á þessu, frekar en að nokkur annar í landinu hefði talið að slíkt myndi gerast.

Ég hafði líka verið á tveim þjóðhátíðum þar.

Þessi börn sem sátu á gólfinu í stofunni okkar væru rúmlega fimmtug í dag um 53 eða 54 ára gömul eða svo, og ég velti fyrir mér hvort þessi atburður hafi festst þeim í minni? Hvort þau muni eftir að hafa farið inn í stofu í kjallaranum á skóladagheimilinu til að sjá gosið.

Ég tel Hólmfríði hafa verið mjög forsjála og rétt hugsandi að vilja fræða börnin um þetta gos, þar sem landið hefur svo mörg elfjöll sem enginn veit hvenær gætu byrjað að gjósa.

Matthildur Björnsdóttir




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×