Skoðun

Sýndar­mennska og blekkingar

Brynjar Níelsson skrifar

Í febrúar sl. lögðu 18 þingmenn fram beiðni um skýrslu um samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt á Íslandi og Namibíu. Í beiðninni kemur fram að þess sé óskað að ráðherra flytji Alþingi skýrslu um „samanburð á greiðslum Samherja fyrir veiðirétt í Namibíu og á Íslandi á grundvelli upplýsinga frá Fiskistofu og í þeim skjölum sem RÚV fjallaði nýlega um í fréttaskýringaþættinum Kveik.“ Þá segir að best færi á því að skýrslan yrði unnin af óháðum aðila en einnig „telja skýrslubeiðendur æskilegt að samráð verði haft við þingflokka um þá óháðu aðila sem fengnir verða í þessa þýðingarmiklu vinnu.“ Beiðnin var samþykkt á Alþingi 6. febrúar með 27 atkvæðum.

Nokkrir stjórnarþingmenn gerðu athugasemd við þessa skýrslubeiðni þar sem samanburður af þessi tagi væri þýðingarlaus nema að skoða um leið rekstrarskilyrði í löndunum, s.s eins og laun, skatta og gjöld og annan kostnað sem fylgir útgerð. Skilja mátti fjármálaráðherra í ræðu á þinginu svo að með þessari skýrslubeiðni væru þingmenn að slá ný met í lýðskrumi og sýndarmennsku. Hann er ekki einn um þá skoðun.

Í apríl á þessu ári var gerður samningur við Hagfræðistofnun um vinnslu skýrslunnar og niðurstöðu skilaði hún í lok júní. Í inngangskafla skýrslunnar segir að í tilboði Hagfræðistofnunar í verkið komi fram að æskilegt sé að umfjöllunin hvíli á opinberum gögnum eftir því sem kostur sé. Þá segir að þær ásakanir sem komu fram í Kveik um greiðslur til þeirra sem úthlutuðu veiðirétti í Namibíu séu til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og í Namibíu. Þá segir: „Meðan beðið er niðurstöðu rannsókna er vart við hæfi að taka afstöðu til kæruefnanna og er því ekki fjallað um þau í skýrslunni. Af þeim ástæðum var ljóst að ekki var hægt að svara skýrslubeiðninni eins og hún var sett fram og er því í skýrslunni eingöngu stuðst við opinberar birtar upplýsingar.“ Hagfræðistofnun telur sem sagt ekki við hæfi að byggja sína niðurstöðu á upplýsingum um meintar mútugreiðslur sem eru enn til rannsóknar, líkt og óskað var eftir í skýrslubeiðninni.

Jafnframt er tekið fram að samanburðurinn taki einungis til veiðigjalda Samherja á Íslandi og í Namibíu. Þá segir: „Fjölmargt annað hefur áhrif á kostnað við rekstur útgerða. Nægir í því sambandi að benda á almenna skatta og gjöld. Þá geta rekstrarskilyrði útgerða að öðru leyti verið ólík frá einu landi til annars. Þar má benda á kostnað við laun, kostnað við veiðarfæri og eldsneyti, svo að eitthvað sé nefnt.“ Ekki er hægt að túlka þessa ábendingu Hagfræðistofnunar öðruvísi en svo að þessi skýrslubeiðni hafi takmarkaða þýðingu, eins og margir stjórnarþingmenn bentu á í umræðu á þinginu.

Í öðrum kafla skýrslunnar er fjallað um skattlagningu veiða annars vegar á Íslandi og hins vegar í Namibíu. Vísað er til þess að á Íslandi greiða útgerðir ýmsa skatta og gjöld, m.a. veiðigjald. Í Namibíu þurfi að greiða svokölluð kvótagjöld en upphæð þeirra sé mishá eftir þjóðerni áhafnar, ríkisfangi skips og því hvort fiskurinn er unninn á landi eða sjó. Jafnframt er vísað til þess að munur er á fyrirkomulagi aflaheimilda í þessum tveimur löndum. Á Íslandi sé réttur handhafa til þess að nýta aflahlutdeildir ótímabundinn samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. Rétturinn gangi kaupum og sölum á markaði og skip heldur sinni aflahlutdeild þar til hún er færð á annað skip eða seld öðru fyrirtæki. Í Namibíu sé hins vegar „aflaheimild ekki eins traust.“ Vísar Hagfræðistofnun til þess að þar þurfi fyrirtæki að hafa nýtingarrétt fyrir fisktegundir sem þau vilja veiða og að nýtingarrétti sé úthlutað í 7, 10 eða 15 ár í senn. Þá segir: „Ef fyrirtæki á nýtingarrétt getur það fengið úthlutað kvóta. Á hverju ári ákveður ráðherra hvert aflamark er fyrir hverja tegund og hann úthlutar kvóta til handhafa nýtingarréttar eftir hentisemi. Ráðherra má einnig halda eftir hluta kvótans og úthluta honum seinna á árinu (Marine Resources Act 27/2000). Þetta gerir ráðherra kleift að nota kvótann sem valdbeitingartæki gegn útgerðunum. Því er ekki hægt að treysta á að hægt sé að starfrækja útgerð til langs tíma án þess að vera í góðu sambandi við ráðherra.“

Í þriðja og síðasta kafla skýrslunnar er fjallað um veiðigjöld í samhengi við aflaverðmæti. Þar segir að til þess að hægt sé að bera veiðigjöld saman milli landa þurfi að setja þau í rétt samhengi. Um aðferðafræði við þennan samanburð segir í skýrslunni: i. „Veiðigjöld leggjast á þorskígildi og eru mishá frá ári til árs. Tekin voru saman veiðigjöld sem lögð eru á þessar fjórar tegundir árin 2012 til 2018. Einnig var tekið saman meðalverð fisktegundanna, reiknað sem aflaverðmæti íslenskra fiskiskipa deilt með veiddu magni, og það borið saman við veiðigjöldin til að finna hlutdeild veiðigjalda í meðalverði. Síðan voru aflaheimildir Samherja notaðar til þess að reikna vegið meðaltal hlutfalls veiðigjalda í meðalverði hjá Samherja.“

Svo segir í skýrslunni: „Í Namibíu veiðir Samherji nær eingöngu hrossamakríl. Fiskurinn er unninn um borð og meirihluti áhafnar er namibískur, samkvæmt upplýsingum frá Samherja, svo að útgerðin telst hafa bækistöðvar í Namibíu. Af þessu ráðast gjöldin sem Samherji greiðir. Skip með bækistöðvar í Namibíu sem vann fiskinn um borð greiddi 120 namibíska dollara fyrir hvert tonn af hrossamakríl árin 2004 til 2016. Árið 2017 hækkaði gjaldið í 136,8 namibíska dollara á hvert tonn. Árið 2018 breyttist veiðigjaldakerfið. Þá voru veiðigjöldin skilgreind sem hlutfall af aflaverðmæti og fyrir skip, sem vinnur fiskinn um borð og er með bækistöðvar í Namibíu, er hlutfallið 10%. Gengi íslensku krónunnar gagnvart namibískum dollar á hverjum tíma var notað til þess að reikna út veiðigjöld á hvert kíló af hrossamakríl í íslenskum krónum. Gögn um útflutningsverðmæti og magn afla úr gagnagrunni FAO eru nýtt til þess að reikna út meðalverð á namibískum hrossamakríl.“

Með þessari aðferðafræði er það niðurstaða Hagfræðistofnunar að veiðigjöldin ein og sér hafi verið hærri á Íslandi á þessu sjö ára tímabili að undanskildu árinu 2018. Eins og fram hefur komið er ekkert tillit tekið til rekstrarkostnaðar, sem má ætla að sé talsvert hærri á Íslandi en Namibíu. Því var furðulegt að lesa forsíðufrétt Fréttablaðsins með viðtali við formann Viðreisnar þar sem kosið er að fjalla bara um árið 2018 og svo í fréttum Stöðvar 2 var kyrjaður sami söngurinn um að almenningur fái ekki réttláta hlutdeild í arðinum af fiskveiðiauðlindinni. Formaðurinn gat því gagnrýnislaust hunsað niðurstöðu Hagfræðistofnunar um árin 2012-2018, og valdi frekar að miða við eitt ár því það hentaði hennar pólitíska málflutningi. Enn fremur var ekkert spurt um þá staðreynd að íslenskur sjávarútvegur er eina atvinnugreinin sem borgar sértækan skatt fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda, m.a. 33% veiðigjald af afkomu við veiðar auk tekjuskatts. Við það bætist aflagjald og ekki má gleyma kolefnisgjaldinu, en þessi gjöld eru mjög íþyngjandi skattar.

Samandregið er tvennt í niðurstöðu Hagfræðistofnunar sem stendur upp úr. Annars vegar eru réttilega settir fram miklir efnislegir fyrirvarar við þann gjörning að bera saman veiðigjald á Íslandi og í Namibíu, án þess að skoða um leið önnur rekstrarskilyrði í löndunum. Hins vegar er það vitnisburður um það pólitíska vindhögg sem þessi skýrslubeiðni var að Hagfræðistofnun hafnar að byggja sína niðurstöðu á upplýsingum um meintar mútugreiðslur, líkt og óskað var eftir. Í staðinn var byggt á opinberum upplýsingum og niðurstaðan að hærra veiðigjald var greitt á Íslandi.

Sjávarútvegurinn greiðir hærra hlutfall tekna sinna í sameiginlega sjóði okkar en nokkur önnur atvinnugrein á Íslandi og er sennilega skattpíndasta atvinnugrein í heiminum öllum. Heldur fram sem horfir mun það veikja samkeppnistöðu greinarinnar og möguleika til frekari verðmætasköpunar í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Það er nefnilega hægt að drepa sjálfbæra atvinnugrein með einu pennastriki. Stjórnmálamenn eiga til að gleyma í allri sýndarmennskunni að mestur arður þjóðarinnar er að eiga sjálfbæran og samkeppnishæfan sjávarútveg. Mörgum stjórnmálamönnum finnst það vera til framdráttar fyrir sig pólitískt að ala á öfund með sífelldu masi um að þjóðin fái ekki réttláta hlutdeild úr auðlindinni og til að auka á reiðina eru ítrekaðar ásakanir um svindl og óheiðarleika forsvarsmanna íslensks sjávarútvegs. En engum af þessum stjórnmálamönnum dettur í hug að koma með fullmótaðar tillögur um betra og öflugra fiskveiðikerfi og jafnvel réttlátara.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×