Skoðun

Brjálað að gera

Kristjana Björk Barðdal skrifar

„Já veistu það er alveg brjálað að gera,“ segir fólk á innsoginu þegar það er spurt hvað er að frétta. Ég man eftir að hafa gert grín að þessu þangað til að ég stóð sjálfa mig að þessu einn daginn. Svarið sem ég fékk var hrós og mér hampað fyrir að vera svona dugleg og alltaf að.

Á Íslandi ríkir álagsmenning. Álagsmenning lýsir sér þannig að stress er talið af hinu góða og fólk sem er duglegt á að vera stressað. Stress er það sama og velgengni. Margir kannast við þetta úr háskólanámi þar sem það er eðlilegt að vaka alla nóttina fyrir próf til þess að læra sem mest. Þegar við heyrum setningar á borð við ,,Ég var að vinna frameftir alla dagana í þessari viku” eða ,,Það var svo mikið að gera í dag að ég komst ekki einu sinni í hádegismat” trekk í trekk verður þetta eðlilegt. Þetta gerir það að verkum að við upplifum að við séum ekki að leggja nógu mikið á okkur nema við getum sagt svipaðar setningar. Við byrjum að trúa því að við þurfum að fórna andlegu heilsunni okkar til þess að líða eins og við séum að standa okkur vel.

Ég áttaði mig á því að ég er hluti af þessum hóp og með því að endurtaka þessar setningar er ég að ýta undir menninguna. Ég fann mig alltof oft vera segja frá því að ég hafi ekki tíma fyrir hitt og þetta því það sé svo mikið að gera. Ég geti ekki stundað líkamsrækt því ég hef hreinlega ekki tíma. Eftir að hafa frestað líkamlegri og andlegri heilsu aftur og aftur byrjaði ég að taka eftir einkennum kulnunar. Mér fannst verkefnin mín aldrei nógu spennandi og mér fannst fólkið í kringum mig aldrei standa sig. Ég gat ekki lengur sofið og var farin að gleyma miklu meira en eðlilegt er. Ég hef því síðustu misseri reynt að breyta hugarfarinu mínu gagnvart andlegri og líkamlegri heilsu en til þess hef ég tileinkað mér eftirfarandi þrjá hluti:

Setja mörk

Oftar en ekki er ástæðan fyrir því að ég vann of langt fram eftir sú að ég sagði alltaf já. Ég tók alltaf símtalið, svaraði skilboðunum strax og afbókaði tímann í ræktina til þess að geta mætt á fundinn. Ég hef því tamið mér að setja sjálfri mér mörk þegar kemur að því að velja vinnu/skóla/félagsstörf umfram hreyfingu. Sömuleiðis legg ég mikið upp úr því að setja mörk í samskiptum og þá sérstaklega í félagsstörfum/skóla þar sem ekki er skilgreindur ,,vinnutími”. Ég hef til dæmis tamið mér það að reyna að læra ekki um helgar og segjast þá ekki komast á þeim tímum sem samnemendur mínir vilja vinna hópverkefnið. Því þó svo maður sé í námi er mikilvægt að taka sér helgarfrí.

Setja sér stefnu

Frá því ég hóf háskólanám hef ég verið virk í félagsstörfum og alltaf slegið til ef tækifæri býðst. Með auknum verkefnum opnast enn fleiri dyr og getur því verið erfitt að segja nei við spennandi verkefnum eða tækifærum. Til þess að forgangsraða og passa upp á orkuna mína og tíma setti ég mér stefnu. Ég ákvað að taka ekki að mér nýtt verkefni nema að ég virkilega brenni fyrir því og í mínu tilviki þarf það annað hvort að tengjast jafnrétti eða nýsköpun. Þannig passa ég að ég sé einungis að gefa tíma og vinnu í þau verkefni sem ég virkilega vil vinna. Þar með vinn ég þau verkefni sem ég tek að mér vel.

Taka frá tíma til þess að endurstilla sig

Áður en ég áttaði mig á því að ég væri að taka þátt í álagsmenningunni gat ég ekki slappað af. Ég gat ekki átt rólegt kvöld án þess að skipuleggja kvöldið í þaula. Ég hef því reynt að finna hvað hentar mér til þess að slappa af og safna orku. Ég tók eftir því að ég gat gleymt mér tímunum saman við að gera kvöldmat og fór þá markvisst að taka mér lengri tíma í það. Ég fann sömuleiðis að gönguferðir með vinkonum gáfu mér ótrúlega mikla orku og reyni ég því að drífa mig út í göngu eftir langa daga þar sem það róar hugann og ég sef miklu betur eftir að hafa hreyft mig.

Við getum ekki gert allt og við þurfum að passa upp á okkur sjálf, það þarf ekki alltaf að vera brjálað að gera. Við eigum rétt á því að setja mörk til þess að njóta þess að vinna að þeim verkefnum sem við brennum fyrir án þess að við brennum út.

Hættum því að taka þátt í álagsmenningu og lofum það frekar þegar fólk setur sjálft sig í fyrsta sæti.

Ég hlakka til að bæta við í verkfærakistuna mína á þriðjudaginn á viðburðinum Ofurkonan þú sem Ungar athafnakonur og Hugrún geðfræðslufélag standa fyrir.

Höfundur situr í stjórn Ungra athafnakvenna (UAK).




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×