Skoðun

Að vera tryggður en samt ekki

Guðbrandur Einarsson skrifar

Með vinnuframlagi sínu tryggja launamenn framlag í Atvinnuleysistryggingasjóð sem er fjármagnaður með skyldugreiðslu tryggingagjalds, sem m.a. er nýtt til fjármögnunar sjóðsins og Fæðingarorlofssjóðs. Á sínum tíma stóð Atvinnuleysistryggingasjóður einn og sér með talsvert eigið fé, en var síðan sogaður inn í ríkissjóð. Þannig varð um ýmsar sértekjur sem áttu að fjármagna ýmis sértæk verkefni s.s. uppbyggingu samgöngumannvirkja, hjúkrunarheimili og fl.

Staðan í dag er því þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður er nýttur í ýmis önnur verkefni en til greiðslu atvinnuleysisbóta.

Mikið atvinnuleysi

Atvinnuleysi á Íslandi er mikið, en þó mismikið eftir landshlutum. Á Suðurnesjum er atvinnuleysið komið yfir 20% og hafa margir verið lengi atvinnulausir. Þeirra bíður lítið annað en fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna þegar réttur til atvinnuleysisbóta hefur verið fullnýttur.

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hvatti nýverið ríkisstjórn til þess að lengja tímabil atvinnuleysisbóta tímabundið til þess að bregðast við þessari erfiðu stöðu, en við því var ekki orðið, því miður.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga

Staða margra er því sú að þurfa að leita á náðir sveitarfélaga og óska eftir fjárhagsaðstoð, sem í öllum tilfellum er lægri en grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta og það hafa margir gagnrýnt. Upphæð fjárhagsaðstoðar í Reykjanesbæ er í dag kr. 152.000 en verður hækkuð um rúm 14% um áramót í kr.174.000. Það dugar þó hvergi nærri til.

Hver á að greiða?

Staðan er hins vegar þannig að flestir sem eru nú að leita eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, er fólk sem misst hefur vinnu sína. Réttur til atvinnuleysisbóta er í dag 30 mánuðir en var fyrir hrun 36 mánuðir og var þá lengdur í 50 mánuði til þess að bregðast við því ástandi sem þá var.

Það að lengja bótaréttinn í 36 mánuði eins og hann var fyrir í hrun myndi breyta miklu.

Stóra spurningin finnst mér hins vegar vera þessi: Hver á greiða fólki sem missir vinnu sína? Er það sveitarfélag sem hefur engan annan tekjustofn en útsvar til á nýta eða ríkissjóður sem hefur sértekjur af tryggingargjaldi til þess að fjármagna slíkt.

Liggur svarið ekki í augum uppi?

Höfundur er forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×