Skoðun

Eignin sem við fáum ekki greitt fyrir

Karl Hrannar Sigurðsson skrifar

Í dag er alþjóðlegur persónuverndardagur. Persónuvernd hefur mikið verið í umræðunni undanfarin ár og mun án nokkurs vafa verða það áfram um ókomna framtíð. Umræðuefnið kann þó að vera orðið þreytandi fyrir marga. Langar persónuverndarstefnur og skilmálar áreita okkur á hinum ýmsu vefsíðum. Gjarnan, og kannski eðlilega, nennum við ekki að lesa í gegnum hinn langa og óskiljanlega texta og samþykkjum hann þegjandi og hljóðlaust.

En það er mikilvægt að átta sig á hvað þarna liggur undir. Upplýsingasöfnun um einstaklinga hefur stóraukist á undanförnum árum og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun. Við erum farin að nota öpp í tengslum við flestar athafnir daglegs lífs, svo sem til að skrá niður hvað við borðum, hvernig við hreyfum okkur, til að greiða fyrir vöru og þjónustu og svo mætti lengi áfram telja. Í sumum tilfellum erum við hvött til að taka okkur frí frá snjallsímanum og gera eitthvað annað, til dæmis hugleiða. En síminn er þá auðvitað líka með lausn fyrir það, þú getur að sjálfsögðu náð þér í hugleiðsluapp.

Málið er ekki bara að við erum að láta af hendi allar þessar upplýsingar um okkur sem liggja svo einhvers staðar ósnertar. Þessar upplýsingar gefa miklar vísbendingar um hver við erum í raun og veru. Mörg fyrirtæki hafa lært að nýta það sem verðmæti og oftar en ekki hafa þau gert það á bak við tjöldin. Löggjafinn hefur viljað bregðast við þessu og nú er skýr krafa um að fyrirtæki upplýsi okkur um hvað þau gera með okkar persónuupplýsingar. Af þeim sökum kunna óþolandi persónuverndarstefnur að birtast okkur í tíma og ótíma.

Sum fyrirtæki hafa selt okkur þá hugmynd að þjónustan þeirra sé ókeypis. Hið rétta er þó að við höfum greitt þeim fyrir þjónustuna með okkar upplýsingum og einkalífi. Því meira sem við látum af því af hendi, þeim mun betur kynnast þau okkur. Eftir því sem þau kynnast okkur betur, þeim mun auðveldara er fyrir þau að birta okkur viðeigandi efni. Slíkt laðar að sjálfsögðu auglýsendur að sem eru tilbúnir að greiða fyrir sitt pláss.

Okkar upplýsingar tilheyra okkur og eru okkar eign. Sannleikurinn er sá að mörg fyrirtæki hafa fengið okkar upplýsingar frítt og hagnast gífurlega. Með réttu ættum við að spyrja okkur hvort ekki væri rétt af þeim að greiða okkur fyrir að nota þjónustuna þeirra og veita aðgang að okkar persónuupplýsingum.

Höfundur starfar sem ráðgjafi á sviði persónuverndar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×