Skoðun

Formannskjör í VR

Maríanna Traustadóttir skrifar

VR er fjömennasta stéttarfélag landsins og spannar litróf félagsmanna allan litaskalann. Hóparnir innan VR eru margbreytilegir og kröfur og þarfir ólíkar og er það mikil áskorun fyrir forystu félagsins. Það sem skiptir meginmáli er að formaðurinn hafi hagsmuni allra félagsmanna að leiðarljósi en ekki þröngs hóps þeirra sem fylgja pólitískum skoðunum sem hann sjálfur hefur áhuga á í einstökum málum. Verkalýðsbarátta er félagspólitík, stéttarfélög eiga að beita sér í baráttunni fyrir bættum kjörum fyrir alla, óháð pólitískum skoðunum.

Félagið getur og á að beita sér í þeim málum sem skipta máli í dag og til framtíðar. Fjölmargar áskoranir bíða nýs formanns VR, þar er helst að nefna afleiðingar heimsfaraldursins á líf og störf almennings og loftlagsbreytingar af manna völdum og áhrif þeirra á störf til framtíðar. Mörg önnur verkefni bíða úrlausnar og skipta félagsmenn VR máli eins og stytting vinnuvikunnar, samþætting einkalífs og vinnu, staða útlendinga á íslenskum vinnumarkaði, launamunur kynjanna, verkefnin eru margvísleg. Því þarf VR sterkan leiðtoga sem hefur víðsýni og þrautseigju að leiðarljósi.

Ég vann fyrir verkalýðshreyfinguna í tugi ára og var fulltrúi hennar í fjölmörgum nefndum og ráðum bæði innanlands og erlendis. Ég hef komið að mörgum þeim málum sem snerta hag allra á vinnumarkaði og get því fullyrt að VR hefur áhrif í krafti fjöldans. Ég er virkur félagi í VG - Vinstrihreyfingunni – grænt framboð og hef verið lengi en læt ekki mínar pólitísku skoðanir hafa áhrfi á val mitt. Mitt val byggir á félagspólitískum markmiðum viðkomandi frambjóðanda, því kýs ég Helgu Guðrúnu Jónasdóttur.

Stéttarfélagsþátttaka hér á land er mikil. En það er ekki nóg að vera félagi í stéttarfélagi, við eigum að vera virk. Hver og einn getur haft áhrif með því að nýta kosningarétt sinn. Formaður VR á að vinna fyrir alla félagsmenn, ég treysti Helgu Guðrúnu Jónasdóttur til að takast á við það krefjandi verkefni. Nýtum kosningaréttinn.

Höfundur er mannfræðingur og félagi í VR.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×