Skoðun

Leik­skóla­mál eru jafn­réttis­mál

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Hjá Reykjavíkurborg ríkir úrræðaleysi gagnvart fjölskyldufólki. Ár eftir ár sitja hundruð barna á biðlistum eftir leikskólaplássi í borginni. Margir njóta góðs af þjónustu dagforeldra, en framboð annar ekki eftirspurn. Litlar framfarir hafa orðið í daggæslu- og leikskólamálum í höfuðborginni síðustu ár.

Á undanliðnum árum hefur farið fram áberandi umræða um mikilvægi þess að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Nýverið steig ríkisstjórnin mikilvægt skref með lengingu fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12 mánuði. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið við sinn hluta. Fjölgun leikskólaplássa fyrir 12 mánaða börn gengur hægt og illa.

Á síðasta ári kynnti meirihluti borgarstjórnar áform um skertan opnunartíma á leikskólum. Sjálfstæðisflokkur lagðist hart gegn breytingunni og varaði við neikvæðum áhrifum skertrar þjónustu. Jafnréttismat staðfesti þessar áhyggjur, enda sýndi niðurstaðan vel þau neikvæðu áhrif sem breytingin myndi hafa á jafnrétti kynjanna.

Þrátt fyrir mikinn árangur í jafnréttisbaráttunni taka konur enn meiri ábyrgð á umönnun barna en karlmenn. Dagvistunarvandi lendir því oftar á konum og dregur úr framgangi þeirra á vinnumarkaði. Mælingar sýna að barneignir hafa neikvæð áhrif á launaþróun kvenna sem ýtir undir kynbundinn launamun. Lausn leikskólavandans er því mikilvægt jafnréttismál.

Skert leikskólaþjónusta var ekki síður köld kveðja til íbúa efri byggða enda sýndi jafnréttismat hvernig skertur opnunartími kemur fremur niður á foreldrum í efri byggðum sem ferðast þurfa langan veg til vinnu. Á haustdögum tók skertur opnunartími engu að síður gildi, að þessu sinni á grundvelli sóttvarna. Þrátt fyrir góðan árangur í baráttunni við sóttina hefur borgin ekki kynnt nein áform um afléttingar á þessum þjónustutakmörkunum. Hugurinn stendur augljóslega til að viðhalda skerðingunum, enda fyrirætlanir meirihlutans lengi snúið að langtímaskerðingum á leikskólaþjónustu.

Reykjavíkurborg þarf að tryggja fjölskyldufólki betri þjónustu. Það er komið að borginni að brúa bilið og mæta lengra fæðingarorlofi með fjölgun leikskólarýma. Að fæðingarorlofi slepptu verða börn að eiga daggæslu vísa og foreldrar að eiga val um daggæslukosti. Það er mikilvægt jafnréttismál.

Höfundur er hrl., varaborgarfulltrúi, aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og frambjóðandi til 3. sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×