Skoðun

Danskir kratar með rós í hatti

Ólafur Ísleifsson skrifar

Danska þjóðþingið samþykkti í vikunni lög sem heimila að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sendir til ríkis utan Evrópu þar sem þeir bíða niðurstöðu umsókna sinna. Kosningaloforð danskra jafnaðarmanna frá 2019 um móttökustöð hælisleitenda utan Danmerkur færist nær því að verða að veruleika.

Lög um að stöðva umsóknir á danskri grundu

Frumvarpið sem Mette Frederiksen, forsætisráðherra hefur beitt sér fyrir af alefli var samþykkt með 70 atkvæðum gegn 24. Samkvæmt lögunum þarf fólk að sækja um alþjóðlega vernd í eigin persónu á landamærum Danmerkur. Þaðan á að flytja það flugleiðis til þess ríkis sem Danmörk hefur samið við að hýsa flóttamenn. Þar bíður fólk á meðan mál þess er til meðferðar. Veiti dönsk stjórnvöld samþykki fyrir hæli (alþjóðlegri vernd) fær fólk ekki að fara aftur til Danmerkur, heldur fær það hæli í samningsríkinu. Ef svarið er nei, þarf fólk að yfirgefa landið. Þeir sem fá hæli fá nauðsynleg lyf, heilsusamlegar aðstæður með rennandi vatni og skólagöngu fyrir börnin.

Dönsk yfirvöld hafa átt í viðræðum við ýmis ríki um að taka við fólki á flótta. Danskir fjölmiðlar greina frá því að þar á meðal séu Egyptaland, Erítrea og Eþíópía. Viðræður hafa staðið yfir við Rúanda og hafa ríkin tvö undirritað viljayfirlýsingu um samvinnu á þessu sviði. Yfirlýsingin er þó á engan hátt bindandi en er talin áfangaskref.

Gerum gagn - Hjálpum fleirum

Danskir jafnaðarmenn lýsa stefnu fyrri ára í hælisleitendamálum sem mistökum og segja evrópska hælisleitendakerfið hrunið. Þessi stefna skilaði þeim sigri í kosningum 2019 og þeir stýra nú ríkisstjórn Danmerkur undir forystu Mette Fredriksen. Nú er stefnan að taka á móti engum hælisleitendum í Danmörku. Nýju lögin eiga að sjá til þess. Hjálpa á fólki heima hjá sér eða sem næst heimaslóð. Nýta á hið örugga og lögmæta alþjóðlega flóttamannakerfi og þróunarsamvinnu til að leggja af mörkum til hins alþjóðlega flóttamannavanda. Með því nýtist fé sem best og gagnist sem flestum. Þessi stefna er að áliti danskra fjölmiðla krúnudjásnið fyrir stjórn danskra jafnaðarmanna, kratarósin í hatt þeirra.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og ýmis mannréttindasamtök hafa gagnrýnt þessa stefnu Dana harðlega. Þar á meðal er Amnesty International en danskir jafnaðarmenn svara fullum hálsi. Þeir segjast vilja hverfa frá stefnu sem reynst hafi mistök. Gera megi betur og nýta fé til að hjálpa fleirum. Miklu fleirum.

Evrópsk þróun í málefnum hælisleitenda

Danir eru ekki einir á báti. Norska ríkisstjórnin segist í stjórnarsáttmála vilja fylgja evrópskri viðleitni í þessa átt. Þjóðverjar og Frakkar leita hófanna um samstarf við ríki í Afríku í þessu skyni. Meira að segja Svíar sem gengið hafa lengst þjóða á Norðurlöndum hafa sveigt umtalsvert stefnu sína í málaflokknum.

Danskir jafnaðarmenn segja glæpagengi græða stórfé á að selja fólki ferðir yfir Miðjarðarhafið. Slíkar ferðir séu lífshættulegar, Miðjarðarhafið sé orðið kirkjugarður, og konur og börn sæti í ferðum áreiti og misnotkun, jafnvel mansali. Mansal er alvarlegt mannréttindabrot sem beinist gegn frelsi og líkama viðkomandi í annars þágu. Ríkislögreglustjóri hér á landi segir aukinn straum hælisleitenda skapa aukna hættu á mansali en Alþingi hefur nú til meðferðar hert ákvæði um mansal í almennum hegningarlögum.

Íslensk stjórnvöld utangátta

Ríkisstjórnin hér á landi fylgir stefnu sem Norðurlandaþjóðir hafa langa reynslu af og lýsa sem mistökum. Skýrt dæmi er frumvarp félagsmálaráðherra um að hælisleitendum bjóðist að búa við sömu kjör og fólki sem boðið er hingað til lands, svokölluðum kvótaflóttamönnum. Slík stefna felur í sér skýr skilaboð til umheimsins sem glæpagengin suður frá munu óefað hagnýta sér. Sömu glæpagengin og danska ríkisstjórnin vill svipta viðskiptatækifærum með réttlátara hælisleitendakerfi fyrir augum.

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×