Skoðun

Einsmáls Baldur

Baldur Borgþórsson skrifar

Í störfum mínum sem varaborgarfulltrúi hef ég komið víða við og í öllum tilfellum gert allt sem í mínu valdi stendur til að tryggja skynsamlegar lausnir og umfram allt sanngjarnar.

Má þar nefna sem dæmi Skipulags og samgönguráð, Umhverfis og heilbrigðisráð, Menningar- íþrótta og tómstundaráð, Borgarráð, Borgarstjórn og Forsætisnefnd.

Málin sem ég hef átt aðkomu að nema hundruðum, eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og skanna í raun litrófið allt.

Þar sem ég er fulltrúi minnihluta borgarstjórnar verða þau sjónarmið sem ég stend fyrir, skynsamlegar lausnir og sanngjarnar, oftar en ekki undir.

Hvers vegna gæti einhver spurt?

Skýringin er einföld og kristallast hvað best í frægum rökum fulltrúa meirihlutans í einu átakamálinu á fyrri hluta yfirstandandi kjörtímabils:

,,Okkur er alveg sama hvað fólk vill, við ætlum að gera þetta.”

Slíkum viðhorfum er erfitt að berjast gegn, enda eins ólík og hægt er viðhorfum þess er vill taka ákvarðanir sem byggðar eru á skynsömum lausnum og sanngirni.

En svartnættið er þó ekki algjört, því einstaka sinnum rofar til.

Bara alltof sjaldan.

Nú berast mér sú tíðindi að ég sé einsmáls maður.

Baldur einsmálsmaður.

Að ég tali aðeins um einn málaflokk, eitt mál:

Vanda fíkniefna- og áfengissjúklinga.

Þrátt fyrir að þetta sé vissulega alrangt, þá er það svo sannarlega rétt að ég hef barist hart fyrir úrbótum og lausnum í þessum málaflokki.

Rétt eins og ég geri alltaf, í öllum málum sem ég kem að.

Leiðarljósið er alltaf hið sama:

Skynsamlegar og sanngjarnar lausnir.

Ég er þakklátur þessum aðila sem hefur af rausn sinni gefið mér þessa nafnbót.

Það er nefnilega svo að ef það er einhver málaflokkur sem ég vil að mín verði minnst fyrir að hafa barist fyrir af lífi og sál, þá er það þessi.

Málaflokkur sem kostar tugi ungmenna okkar lífið árlega.

Málaflokkur þar sem ekkert má spara til í lausnum því líf tuga liggur við og lífshamingja þúsunda.

Á hverju einasta ári…

Til þess sem gaf mér þessa nafnbót hef ég aðeins eitt að segja:

Takk þú.

Höfundur greinarinnar er varaborgarfulltrúi Miðflokksins.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×