Skoðun

Vald og vald­leysi

Árni Múli Jónasson skrifar

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

„Íslandi er að miklu leyti stjórnað af hagsmunahópum og það er meiri háttar mál að lenda uppi á kant við þá.“

„Á Íslandi hins vegar þá snýst þessi opinbera umræða oft ekki um það hvort það sé nóg að gert til að tryggja almannahagsmuni heldur hvort það sé gert of mikið. Hvort það sé verið að setja stóru fyrirtækjunum of miklar skorður.“

Þetta eru ekki orð „öfundsjúkra sósíalista“, heldur fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, núverandi Seðlabankastjóra og núverandi forstjóra Samkeppnisstofnunar.

Eigum við að ekki taka þessi orð alvarlega? Skiptir þetta ekki máli? Getum við kannski ekkert gert í þessu?

Jú! Við getum breytt þessu og ætlum að breyta þessu. Það er skýr stefna Sósíalistaflokksins að ná valdinu til að móta og þróa samfélagið frá peningaöflunum og færa það til fólksins þar sem það á að vera og hvergi annars staðar í lýðræðissamfélagi.

Tækifærin í okkar ríka landi eiga að vera jöfn samkvæmt lagabókstafnum en þau eru það alls ekki í raun. Allt of margir, stórir hópar fólks, þurfa að þola margs konar og mikla mismunun og hafa mjög lítil tækifæri á flestum sviðum. Þessari mismunun og ójöfnuði sem af henni leiðir fylgir síðan virðingarleysi og niðurlægjandi valdleysi fólks sem hefur ekkert til saka unnið annað en að vera fátækt, fatlað, aldrað eða af erlendum uppruna eða er bara af einhverjum ástæðum ekki í náðinni hjá þeim sem mest græða og flest eiga og eru því áskrifendur að valdinu í samfélaginu.

Við getum breytt þessu og við verðum að breyta þessu með því að hafa jöfn tækifæri allra, mannréttindi og hagsmuni alls almennings ávallt að leiðarljósi og snúa af braut misskiptingar og sérhagsmunagæslu, með allri þeirri spillingu sem hún þrífst á og elur af sér.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×