Skoðun

Gleymdu ekki þínum minnsta bróður

Sævar Gíslason skrifar

„Gleymdu ekki þínum minnsta bróður, þó höf og álfur skilji að” er sungið í laginu Hjálpum þeim sem ómar í huga mínum þegar mér er hugsað til ástandsins nú í Afganistan. Við hér sem búum í velmegunarsamfélagi úti á miðju Atlantshafi erum nokkuð heppin að búa við þau lífsins gæði eins og við á vesturlöndunum búum við.

Ekki er þó allt fullkomið í okkar ástkæra landi, við virðumst í hringiðu nútíma samfélags gleyma okkar næsta fólki sem á um sárt að binda í þjóðfélaginu en öll viljum við gera betur í þeim efnum og ég trúi því að hægt er að breyta því með samstilltu fólki með ólíkan bakgrunn sem eins og ég viljum gera eins vel og við getum.

Neyðin er hinsvegar margskonar í nútíma samfélagi, með meiri nútíma hnattvæðingu, færumst við nær hvert öðru, með meiri tækni koma fleiri upplýsingar og því færast lönd sem virtust í órafjarlægð frá okkur enn nær en áður. Því tel ég það vera okkar siðferðisleg skylda að taka á móti fólki sem óttast það að verða pyntað, fangelsað eða tekið af lífi fyrir það eitt að hafa aðrar skoðanir en samtök eins og Talibanar hafa. Það að við getum rétt hjálparhönd til þeirra sem óttast um líf sitt þykir mér ómetanlegt og trúi ég því að kjör okkar á Íslandi versna ekki við það að sýna manngæsku í þessum málum.

Hinsvegar er ekki nóg að ferja fólk á milli landa, það þarf að hugsa málið til enda og við þurfum að gera hlutina vel, því hús getur litið vel út að utan en ef undirstöður eru ekki góðar mun húsið falla með tímanum. Minnist ég þá þess að liðin eru rétt rúmlega 40 ár frá því að um 35 víetnamskir flóttamenn komu hingað til lands til að hefja nýtt líf.

Þetta voru fjölskyldur sem íslenska ríkisstjórnin samþykkti árið 1979 að taka á móti í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar. Á þessum tíma voru miklar umræður um málið og meðal annars hversu stór hópurinn var miðað við fólksfjölda hér á landi.

Hópurinn var þó aðeins örlítið brot af þeim mörg hundruð þúsundum flóttamönnum sem flúið hefðu ástandið í Víetnam árin á undan. Fólkið sem hingað kom fékk íbúðir, vinnu og vist í skólum og lærði íslensku, þar að segja það var tekið á móti þeim með allt tilbúið til aðlögunar. Það flóttafólk sem komu hingað hafa dafnað vel hér á landi, orðið máttarstólpar í atvinnulífinu og eru orðnir sannir Íslendingar.

Gerum í okkar valdi það sem við getum, tökum við þeim fjölda sem við teljum að við getum sinnt því sé ég ekkert til fyrirstöðu að við getum ekki gert slíkt hið sama og við gerðum fyrir rúmlega 40 árum aftur.

Höfundur er formaður Miðflokksfélags Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×