Skoðun

Mannréttindi, ekki munaðarvara

Gunnar Karl Ólafsson skrifar

Við þurfum að bæta heilbrigðiskerfi okkar. Til þess þurfum við að vita hvert við ætlum að stefna, hvaða breytingar þarf til. Það þarf að líta á heilbrigðisþjónustu sem mannréttindi og að hún sé samfélagslegt verkefni og viðurkenna um leið að þessi þjónusta er verkefni hins opinbera að mestu leyti. Þá fyrst hefjum við góða stefnumótun til framtíðar.

Að færa heilbrigðisþjónustu frá hinu opinbera í einkarekstur er einkavæðing, annað er útúrsnúningur. Embætti landlæknis gerði úttekt árið 2017 sem sýnir fram á að fjöldi óþarfa aðgerða eru gerðar á einkareknum læknastofum og kostnaðurinn hlaupi á hundruðum miljóna sem að ríkið greiðir að mestu . Raunútgjöld ríkisins til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu hafa aukist um 40% frá 2010 til 2017 á meðan að raunútgjöld til reksturs opinberrar þjónustu dróst saman um 10%.

Leiðin áfram er að hlusta á heilbrigðisstarfsfólk, fjárfesta í og byggja upp félagslegt heilbrigðiskerfi. En samkvæmt rannsóknum þá skila félagsleg heilbrigðiskerfi lang bestu aðgengi og þjónustustigi ásamt því að kostnaðurinn þar er lægstur. Þar á eftir koma blönduð kerfi og allra lakasta staðan er í einkareknum kerfum.

Það er því ljóst að aukinn einkarekstur er ekki lausnin við vandanum né það sem að almenningur vill gera, en samkvæmt könnunum er mjög lítill stuðningur við að einkaaðilar reki nokkurn skapaðan hlut í heilbrigðiskerfinu okkar. Því fyrr sem að við tökum ákvörðun um að hætta að þrengja að félagslega heilbrigðiskerfinu okkar, því fyrr getur heilbrigðiskerfið risið á ný og þjónustað okkur á manneskjulegan hátt.

Þess vegna þurfum við nýja ríkisstjórn eftir kosningar, því að atkvæði með núverandi ríkisstjórn er atkvæði með frekari einkavæðingu, minna eftirliti og dýrara heilbrigðiskerfi fyrir okkur öll. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem ætlar að beita sér að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins með samtali við heilbrigðisstarfsfólk, ráðast í aðgerðir gegn undirmönnun í heilbrigðisgreinunum, byggja upp þreytta innvið og stytta biðlista með því að auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu.

Við verðum að taka ákvörðun sem þjóð að heilbrigðisþjónusta sé mannréttindi, ekki munaðarvara.

Höfundur er í 18. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×