Skoðun

Ekki þjóðhættulegt að hækka lágmarkslaun

Flosi Eiríksson skrifar

Nú á dögum var tilkynntur vinningshafi nóbelsverðlauna í hagfræði þetta árið. Þrír fræðimenn deila með sér verðlaununum en rannsóknir þeirra tengjast með ákveðnum hætti. Það er ekki alltaf gott fyrir leikmenn að átta sig á því sem hagfræðirannsóknir fjalla um eða verið er að verðlauna fyrir.

Þetta árið er það svo að verðlaunaefnið er afar skýrt. Hagfræðingurinn David Card sýndi fram á það árið 1994 að það að hækka lágmarkslaun á skyndibitastöðum leiddi ekki til aukins atvinnuleysis, þvert á ríkjandi kenningar þess tíma. Með því að bera saman tvö sambærileg svæði í Bandaríkjunum var sýnt fram á að það sem lengi hefur verið samþykkt sem „viðurkennd sannindi“ á ekki við hagfræðileg rök að styðjast. Reyndin er sú störfum fjölgaði þar sem lágmarkslaunin voru hækkuð.

Við könnumst afar vel við þá trúarsetningu atvinnurekenda og samtaka þeirra hér á landi í umræðum um kjaramál að það sé þjóðhættulegt að hækka lægstu launin, þá aukist atvinnuleysi gífurlega og gott ef þjóðfélagið riði ekki meira og minna til falls í þeirri mynd sem við þekkjum. Forystufólk í verkalýðshreyfingunni sem talar fyrir bættum kjörum láglaunafólks er úthrópað og sakað um skipulagða skemmdarverkastarfsemi, og gerðar upp alls konar illar kenndir. Ekki verður mikið vart við efnislega umræðu um þessi úrlausnarefni eða það að fylgjast með nýjum hugmyndum og niðurstöðum rannsókna á sviði hagfræði og fleiri greina í samfélagsumræðunni.

Mikið væri nú gaman að sjá faglega umræðu um þessi stóru viðfangsefni í okkar samfélagi, að við ræðum um það hvernig við getum bætt kjör og tryggt stórum hópum mannsæmandi lífskjör. Slík umræða kallar reyndar á að fólk sé tilbúið að endurskoða ýmsar gamlar ,,kreddur“ og nálgast verkefnin á nýjan hátt.

Kannski er það óraunhæf bjartsýni að vona að það sé hægt.

Höfundur er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×