Skoðun

Virkt eftir­lit er grund­völlur verð­mæta­sköpunnar

Ögmundur Knútsson skrifar

Vaxandi umhverfisvitund almennings og auknar kröfur neytenda um að fiskveiðum sé stjórnað með sjálfbærni að leiðarljósi hefur skapað íslenskum sjávarútvegi gott orðspor og samkeppnisforskot. Þetta byggir meðal annars á trausti þess að hér séu vísindalegar nálganir notaðar við stjórn fiskveiða, ábyrg nýting fiskistofna og umgengni við hafið í hávegum höfð.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, hefur gagnrýnt að mjög takmörkuð gögn liggi fyrir um hversu miklum afla sé hent hér á landi og í Noregi. Ríkisendurskoðun gagnrýndi auk þess Fiskistofu, sem hefur það hlutverk að gæta að ábyrgri nýtingu sjávarauðlindarinnar, árið 2018 vegna veikburða og ómarkviss eftirlits.

Það kemur íslenskum sjávarútvegi ekki til góða að sú saga nái fótfestu að á Íslandi sé óvirkt fiskveiðieftirlit heldur grefur það undan trúverðugleikanum sem byggst hefur upp.

Fiskistofa hefur þegar brugðist við gagnrýni FAO og Ríkisendurskoðunnar. Meðal annars hefur stofnunin fjárfest í drónum og var eftirlit með þeim hafi í upphafi þessa árs. Áður en drónar voru teknir í notkun var fjöldi brottkastmála hjá Fiskistofu í kringum 10 mál á ári. Í lok nóvember árið 2021 var fjöldi mála kominn í 142. Það er ljóst að tíðni brottkasts segir ekki allt um magnið sem er hent en ljóst er að tegunda- og lengdarháð brottkast er mun meira en áætlað hefur verið hingað til á Íslandsmiðum.

Mikilvægt er að farið verði í átaksverkefni til að áætla brottkastið á Íslandsmiðum og þróuð verði aðferðafræði til að nota gögn frá drónum sem og mælingum gerðum af eftirlitsmönnum Fiskistofu.

Fiskistofa hefur þegar óskað eftir samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Landhelgisgæsluna um slíkt verkefni. Samhliða mælingum á brottkast er mikilvægt að farið verði í fræðilega skoðun á hvernig úrræði í fiskveiðistjórnunarkerfinu eru nýtt til að koma í veg fyrir brottkast og hvort styrkja þurfi þau úrræði.

Hendum ekki verðmætum og orðsporinu um leið

Mikil verðmæti felast í þeim fiski sem er hent við veiðar og ljóst að hægt er að auka verðmætasköpun mikið ef öllum fiski verði landað eins og lög segja til um. Mikilvægt er greinin komi sér upp verklagi og gæðakerfum sem tryggja skaðlausa hegðun. Skilvirkt eftirlit er mikilvægt fyrir greinina í heild sinni til tryggja gott orðspor og samkeppnishæfni hennar.

Íslenskur sjávarútvegur er leiðandi á heimsvísu í tækniþróun og mikilvægt að eftirlit verði það einnig þannig að litið verði til Íslands sem fyrirmynd í umgengni um auðlindina á heimsvísu. Slíkt er hægt með sameiginlegu átaki allra sem að greininni koma og mikilvægt fyrir orðspor íslensks sjávarafurða. Sé það ekki gert grefur það undan vísindalegri nálgun því hún byggir þá ekki lengur á réttum tölum, það grefur svo undan lífríkinu og orðsporinu og þar með sjávarútveginum í heild.

Lagaumhverfi Fiskistofu þarf að styrkja til að hægt verði að þróa eftirlitið í takt við þróun tæknibreytinga þar sem horft er á sjálfvirknivæðingar eftirlitsins og ábyrgðar greinarinnar við að sýna fram skaðlausa hegðun. Gott regluumhverfi og eftirlit er nauðsynlegt fyrir nútímasamfélög til að ná fram góðum lífskjörum og almennt séð gera umhverfið þannig úr garði að það sé góður staður til að lifa, starfa og eiga viðskipti í. Skilvirkar og vandaðar eftirlitsstofnanir spila þar lykilhlutverk, en þeim er á sama tíma ætlað að stuðla að framþróun, nýsköpun, aukinni framleiðni og hagvexti.

Höfundur er Fiskistofustjóri. 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×