Skoðun

Rökrætt um lífeyrismál

Drífa Snædal skrifar

ASÍ stendur nú fyrir metnaðarfullum rökræðufundi um lífeyrismál og lífeyrissjóði á Selfossi. Þar er formönnum aðildarfélaga ASÍ, fulltrúum vinnandi fólks í stjórnum lífeyrissjóða, félögum í lífeyrisnefnd ASÍ og ungliðahreyfingunni boðið til þátttöku.

Allt frá því samið var um skylduaðild að lífeyrissjóðum árið 1969 hefur verið fjörug umræða innan verkalýðshreyfingarinnar um lífeyrismál, og sömu sögu má segja um samfélagið allt. Þegar samningurinn var gerður var staðan sú að vinnandi fólk gat vænst þess að fá 17% af grunnlaunum verkafólks í ellilífeyri úr almannatryggingum. Atvinnuleysið var 7% og landið logaði í verkföllum. Samkomulag um skylduaðild að lífeyrissjóðum var hluti af lausn kjaradeilunnar þótt krafan hafi ekki verið hávær þegar fyrst var gengið til samninga. Launafólk hafði augljósa hagsmuni af þessu en atvinnurekendur voru líka í þeirri stöðu að fólk gat einfaldlega ekki hætt að vinna því það þýddi örbirgð. Grunnurinn að kerfinu voru S-in þrjú: Sjóðssöfnun, skylduaðild og samtrygging.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá. Lífeyrissjóðirnir eru stórir og stöndugir og ekki aðeins trygging fyrir vinnandi fólk heldur líka órjúfanlegur hluti af íslensku efnahagslífi. Þetta vekur auðvitað margar spurningar og álitaefni. Skerðingar almannatrygginga hófust í raun löngu áður en lífeyriskerfið var orðið fullþroskað, sem kemur sérstaklega illa við láglaunafólk og hefur dæmt hópa fólks til fátæktar í ellinni. Í gegnum lífeyrissjóðina er launafólk í raun líka í hlutverki fjármagnseigenda og stundum geta þeir hagsmunir stangast á, sem kallar á umræður um fjárfestingarstefnur og -ákvarðanir lífeyrissjóðanna. Við stöndum líka frammi fyrir þrýstingi um að hækka lífeyristökualdur í samræmi við hækkandi lífaldur. Lífaldurslenging er þó misjöfn eftir stétt og stöðu og það er langt í frá sjálfsagt að hér gildi það sama um alla.

Þessi málefni og fleiri eru til umræðu á rökræðufundi ASÍ sem lýkur í dag, en þetta er í fyrsta sinn sem ASÍ efnir til slíks rökræðufundar þar sem öll deilumál eru sett upp á borðið og samtalið tekið sem leiðir væntanlega af sér bætta ákvarðanatöku og stefnumótun.

Um Úkraínu

Þessa dagana hvílir yfir okkur öllum skuggi innrásar Rússa í Úkraínu. Miðstjórn ASÍ samþykkti á miðvikudag ályktun þar sem innrásin var fordæmd en jafnframt var hvatt til eftirfarandi:

Að fólk taki þátt í mótmælum við stríðsrekstur Rússa í Úkraínu

Að ríkisstjórn Íslands tali fyrir friðsamlegum lausnum á alþjóðavettvangi og leggi sín lóð á vogarskálarnar til að draga úr stigmögnun átakanna

Að stjórnvöld á Íslandi veiti Úkraínumönnum sem hér óska verndar, málsmeðferð og vernd og taki þegar í stað á móti hópum kvótaflóttafólks

Að lífeyrissjóðir okkar dragi til baka fjárfestingar tengdar Rússlandi

Að ríkisstjórn Íslands styðji áfram viðskiptaþvinganir gegn Rússum

Að aðildarfélög undirbúi fræðsluefni á úkraínsku um íslenskt samfélag og vinnumarkað en ASÍ mun gera slíkt hið sama.

Að aðildarfélög leggi til húsnæði ef þörf krefur og þau hafa tök á til að taka við flóttafólki frá stríðshrjáðum svæðum

Það er ábyrgð okkar að tala fyrir friði á ófriðartímum og leggja okkar til í þágu mannúðar.

Góða helgi,

Höfundur er forseti ASÍ




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×