Skoðun

Hafnarfjörður stækkar og blómstrar undir stjórn Sjálfstæðisflokksins

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Á þeim átta árum sem Sjálfstæðismenn hafa verið við stjórnvölinn hefur slæmri fjárhagsstöðu Hafnarfjarðar verið snúið við. Menningarlífið blómstrar og 90% Hafnfirðinga eru ánægð með bæinn sinn. Nú er gríðarleg uppbygging hafin í bænum þannig að á næstu 4-5 árum mun bæjarbúum fjölga um 7.500 manns. Á næstu tuttugu árum mun Hafnfirðingum fjölga um 17.000 manns.

Uppbygging í Hafnarfirði 2021-2031

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur samþykkt skipulag fyrir þéttingu byggðar og stækkun hverfa. Vekja má athygli á því að á Flensborgarhöfn/Óseyrarsvæði og Hraun vestur (5 mínútna hverfið) liggur fyrir samþykkt rammaskipulag og gert er ráð fyrir að uppbygging og þétting byggðar gerist í áföngum. Samhliða mun vinna við deiliskipulag eiga sér stað.

Við áætlun á íbúafjölda er miðað við 2,5 íbúa á hverja íbúð. Séu öll svæði, sem þegar eru komin á skipulag innan Hafnarfjarðar, tekin saman er áætluð fjölgun íbúa til næstu tveggja áratuga um 17.000 manns.

Þrjú ný og spennandi hverfi

Í Hamranesi hafa bæjaryfirvöld undir stjórn Sjálfstæðismanna þegar hafið vinnu við byggingu nýs leikskóla því þar mun byggð stækka verulega. Þróunarreitir og fjölbýlishúsalóðir í Hamranesi fyrir alls um 1.600 íbúðir seldust hratt á árunum2020-2021.Fyrsta skóflustungan í Hamranesi var tekin í febrúar 2021 og er uppbygging þar í fullum gangi. Síðustu sérbýlishúsalóðunum í Skarðshlíð, undir alls 285 íbúðir, var úthlutað í febrúar 2021. Í Skarðshlíðinni rísa einnig 26 fjölbýlishús með 231 íbúð. Frumbyggjar í Skarðshlíðarhverfi fluttu inn í hverfið sumarið 2020 og má gera ráð fyrir að frumbyggjar í Hamranesi flytji inn á þessu ári. Gert er ráð fyrir að fyrstu lóðunum í Áslandi 4 verði úthlutað á næstu vikum. Í þessum þremur nýju hverfum verða um 2.700 íbúðir og um 6.750 íbúar.

Sjálfstæðismenn framkvæma

Með Sjálfstæðismenn í forystu hefur meirihlutinn í Hafnarfirði hafið gríðarlegt uppbyggingarskeið í bænum og snúið við þeirri stöðnun sem einkenndi stjórnartíð vinstri manna. Uppbyggingin er þegar hafin og nýir íbúar flytja í Hafnarfjörð á hverjum degi. Við þurfum Sjálfstæðismenn áfram við völd til að tryggja að bærinn okkar verði ekki aðeins jafn góður og hann er í dag heldur enn betri. Þeir Hafnfirðingar sem það vilja munu setja X við D í kosningunum í maí því það er það besta fyrir Hafnarfjörð.

Höfundur skipar 5. sæti á framboðslista Sjálftæðisflokksins í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×