Skoðun

Þú skuldar 3.056.402 kr

Magnús Benediktsson skrifar

Já þú last þetta rétt. Hver og einn íbúi í Reykjavík skuldar 3.056.402 krónur samkvæmt nýjasta ársreikningi Reykjavíkurborgar. Í upphafi kjörtímabilsins 2018 námu skuldir Reykjavíkurborgar (A og B hluti) 300 milljörðum en nú hefur þessi tala aukist um 107 milljarða og stendur því heildarskuld Reykjavíkurborgar í 400 milljörðum. Sem samsvarar 3.056.402 á hvern íbúa í Reykjavík. 

Til að setja þetta í samhengi var heildarkostnaður við byggingu Hörpu 28 milljarðar sé miðað við vísitölu byggingarkostnaðar í mars 2022. Við erum því að tala um skuldaaukningu á við tæplega fjórar Hörpur á einungis fjórum árum.

Það erum við unga fólkið sem munum þurfa að greiða þessar skuldir

Meirihlutinn hefur misst alla tilfinningu fyrir borgarbúum og kaus frekar að nota góðærisárin 2017-2018 og tekjuaukningu á kjörtímabilinu í að auka skuldirnar í stað þess að greiða þær niður, ólíkt því sem ríkissjóður gerði. Fólk fattar oft ekki að það er einmitt helst í gegnum fjölgun og hækkun gjalda og skatta sem borgarbúar greiða þessar skuldir niður. Veri það fasteignagjöld, rafmagnið, vatnið eða jafnvel bara bílastæðagjöld. 

Þetta skilar sér til dæmis hærra leiguverði og því ekkert skrítið að ungt fólk sé að festast á leigumarkaðnum eða í foreldrahúsum. Þessi meirihluti skuldsetur borgarsjóð upp fyrir öll mörk og það erum við unga fólkið í Reykjavík sem munum á endanum bera þessar skuldir á herðum okkar yfir næstu áratugi og það erum við sem munum þurfa að greiða þær. Höfum þetta í huga þegar við göngum til kosningar í maí.

Höfundur er fyrrum gjaldkeri Heimdallar og stjórnarmeðlimur í Sambandi ungra Sjálfstæðismanna.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×