Skoðun

Mýtur um matar­æði

Jóhanna E. Torfadóttir og Hólmfríður Þorgeirsdóttir skrifa

Hver kannast ekki við umræðuna um að borða í samræmi við blóðflokkinn sinn eða hversu „hollt“ það sé að fasta eða vera á lágkolvetnafæði. Það er skiljanlegt að ekki allir geti fylgt opinberum ráðleggingum um mataræði en hvernig er hægt að fóta sig í gegnum allar þessar misvísandi upplýsingar sem dynja á neytendum sem vilja prófa sig áfram í mataræðinu frá degi til dags?

Danir hafa til að mynda birt svör við ýmsum mýtum um mat sem finna má hér. Þar er fjallað um að lágkolvetnamataræði sé kannski ekkert rosalega sniðugt, að kókosolía sé ekki súperfæða en að velja ætti frekar ólífuolíu og repjuolíu við matargerð, að ekki þurfi að óttast ávaxtasykur í heilum ávöxtum og að það sé í lagi að leyfa sér pizzu annað slagið en kannski ekki á hverjum degi til að gæta að fjölbreytni í fæðuvali. Fjölbreytnin er mikilvæg til að við fáum öll næringarefni sem líkaminn þarfnast og til að koma í veg fyrir að við fáum of mikið af óæskilegum aðskotaefnum. Lélegt mataræði eða skortur á ýmsum hollum fæðutegundum/næringarefnum hefur sýnt sig að vera stærsti áhrifavaldurinn í ótímabærum dauðsföllum í heiminum. Þannig er mikil saltneysla (natríum/sodium) sá þáttur sem vegur þyngst hvað varðar fjölda ótímabærra dauðsfalla en þar á eftir kemur skortur á heilkornavörum, ávöxtum, hnetum og fræjum. Það er í raun verra fyrir heilsuna að sleppa því að borða hollan mat, til dæmis ávexti, grænmeti, baunir og heilkornavörur, en það að borða óhollar matvörur.

Það hefur verið þrálátur rómur í gangi um að kolvetni séu slæm fyrir heilsuna og þá gleymist oft að gera greinarmun á viðbættum sykri eða til dæmis trefjum sem flokkast bæði sem kolvetni. Í samantektargrein (meta-analýsu) á yfir 400 þúsund þátttakendum sem var fylgt eftir í allt að 30 ár kom í ljós að þeir sem voru að fá minna en 40% orkunnar frá kolvetnum voru með 20% hærri dánartíðni en þeir sem fengu á bilinu 50-55% orkunnar frá kolvetnum. Aukin dánartíðni sást einnig meðal þeirra sem fengu meira en 70% orkunnar frá kolvetnum. Þetta snýst því allt um jafnvægi í mataræði milli mismunandi orkuefna og annarra næringarefna eins og vítamína og steinefna. Í nýjustu landskönnun á mataræði frá 2019 til 2021 mátti sjá að meðalhlutfall kolvetna í heildarorkuinntöku var 37%sem er ansi lágt (ráðlagt að fá á bilinu 45-60% orkunnar frá kolvetnum) og því mikilvægt að þau kolvetni sem borðuð eru séu gæðakolvetni sem fást úr heilkornavörum, grænmeti og ávöxtum.Því miður er meðaltrefjaneysla landsmanna langt undir ráðleggingum (25-35 grömm á dag) sem endurspeglar léleg gæði kolvetna. Eins hefur hlutfall mettaðrar fitu aukist í fæði landsmanna og einungs 2% þátttakenda borðuðu í samræmi við ráðleggingar um mettaða fitu þar sem mælt er með að þessi tegund fitu gefi ekki meira en 10% af heildarorkunni en við fáum að meðaltali 16% orkunnar frá mettaðri fitu. Rannsóknir sýna m.a. aukna dánartíðni og aukna tíðni hjartaáfalla ef við förum yfir þessi viðmið. Gæði fitu skiptir því miklu máli fyrir heilsuna en æskilegt er að auka hlut mjúkrar fitu í fæði á kostnað harðrar fitu. Mjúka fitu er fyrst og fremst að finna í fæðu úr jurtaríkinu (jurtaolíum, hnetum, fræjum og lárperum), feitum fiski og lýsi. Sjá nýlegt bréf til Læknablaðins um þetta málefni. Ráðleggingar embættis landlæknis um mataræði byggja á Norrænum næringarráðleggingum sem byggja á stöðu bestu vísindalegrar þekkingar hverju sinni þegar þær eru birtar. Farið er yfir þúsundir vísindarannsókna á kerfisbundinn hátt af sérfræðingum og einungis rannsóknir sem uppfylla strangar gæðakröfur eru teknar til skoðunar.

Það geta verið til margar misjafnar leiðir til að efla heilsuna en þegar við viljum breyta mataræði okkar gæti verið varasamt að seta fókusinn eingöngu á þyngdartap en ekki almennt á heilsuna. Þá má hafa í huga að rannsóknir sýna að innan árs hafa flest bætt aftur á sig einum til tveimur þriðja hluta þyngdarinnar sem var tapað og eftir 5 ár eru flest komin aftur í sömu þyngd. Langtímarannsóknir sýna einnig að einn þriðji þeirra sem léttist var orðinn þyngri en þau voru áður en þau byrjuðu í átakinu. Tap á vöðvamassa og miklar þyngdarsveiflur geta verið varasamar fyrir heilsuna. Hins vegar sýna rannsóknir að hollari lifnaðarhættir bæta heilsuna óháð því hvort þyngdartap eigi sér stað eða ekki. Hvort sem við léttumst eða þyngjumst ætti því fókusinn að vera á heilbrigðari lifnaðarhætti frekar en breytingar á vigtinni. Á Heilsuveru má finna ýmsar ráðleggingar um næringu fyrir mismunandi hópa sem og upplýsingar um aðra áhrifaþætti heilsu.

Höfundar eru verkefnisstjórar næringar hjá embætti landlæknis.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×