Skoðun

Mið­flokkurinn í sókn og vörn

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Eftir nýafstaðnar sveitastjórnarkosningar er Miðflokkurinn með sex fulltrúa í sveitarstjórnum landsins en var með níu áður. Auk þess vann Miðflokksfólk með öðrum framboðum sem náðu inn fulltrúum. Til samanburðar er rótgróinn flokkur eins og Vinstri grænir með 8 kjörna fulltrúa á landsvísu. Sósíalistaflokkurinn, sem keppir um sömu sálir og VG, er aðeins með 2 fulltrúa á landsvísu.

Miðflokkurinn er ungur flokkur og þetta var í annað sinn sem hann býður fram í sveitarstjórnarkosningum og víða eru flokksmenn að fóta sig áfram í hinni pólitísku baráttu. Sumstaðar varð okkar ungi flokkur að þola undirferli þegar fólk gekk úr skaftinu á lokaspretti og lék þannig tveimur skjöldum og truflaði framboð sem hafði verið í undirbúningi. En er flokkurinn að vinna úr þeim svikum sem birtust í því þegar Birgir Þórarinsson hætti í þingflokki Miðflokksins áður en hann tók sæti á Alþingi eftir síðustu þingkosningar. Að þessu sinni bauð Miðflokkurinn fram í eigin nafni, með eða án viðhengja, í 10 sveitarfélögum sem er einu færra en í síðustu kosningum. Flokkurinn er með fulltrúa í fjórum sveitarstjórum. Miðflokkurinn fékk 32,4 prósent atkvæða í Grindavík og er nú stærsti flokkurinn í bæjarstjórn með þrjá fulltrúa. Eins undarlegt og það er þá virðist flokkurinn verða útilokaður frá meirihlutasamstarfi þar. Á Akureyri tekur flokkurinn hins vegar þátt í meirihlutasamstarfi.

Málefnalega var staða Miðflokksins sterk enda leggur flokkurinn áherslu á að leggja við hlustir og finna vilja kjósenda. Hvar eldurinn brennur heitast á þeim og koma með skynsamar og öfgalausar lausnir. Miðflokkurinn leggur áherslu á kraft einstaklingsins í samfélaginu um leið og hann vill efla og styrkja okkar góða velferðarkerfi sem hefur sterkan grunn en hefur orðið fyrir ágjöf og vanhirðu. Miðflokkurinn leggur áherslu á ráðdeild og skynsama meðhöndlun opinberra fjármuna. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa að líða fyrir óráðssíu fólks sem tekið hefur að sér opinber störf. Í velferðarmálum leggur Miðflokkurinn sérstaka áherslu á að koma til móts við þarfir eldri borgara en sá hópur getur ekki beðið lengur eftir réttlæti.

Höfundur er varaþingmaður Miðflokksins. 




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×