Skoðun

Grænir hvatar í bláu hafi

Svandís Svavarsdóttir skrifar

Í dag, 8. júní, er alþjóðlegur dagur hafsins, en Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað hafinu þennan dag síðan árið 2008. Þótt það sé vissulega við hæfi alla daga að meta hafið að verðleikum er það sérstaklega við hæfi í dag.

Hafið hefur ekki aðeins nært okkur frá upphafi byggðar, það hefur líka gefið okkur mikil verðmæti.

En það eru blikur á lofti, og súrnun sjávar er raunverulegt og áþreifanlegt vandamál sem gæti haft afdrifarík áhrif á vistkerfi heimsins og afkomu Íslendinga. Okkur duga engin vettlingatök í þessum efnum og þurfum öll að leggjast á árarnar.

Heilbrigð höf tryggja heilbrigða fæðu

Heimshöfin eru óumdeilanlega ein af stærstu forsendum lífs á jörðinni. En þau eru í hættu, bæði vegna mengunar og ofveiði. Sú staðreynd knýr okkur til að endurmeta kúrsinn og sigla fram hjá skerjum. Við þurfum græna hvata í kerfin okkar sem aldrei fyrr. Einnig að endurhugsa og endurhanna veiðarfæri og endurskoða fiskveiðilöggjöfina svo sporna megi við ofveiði og brottkasti. Við verðum að draga úr sóun og mengun, ekki síst af völdum plasts, og endurheimta heilbrigð höf.

Um 200 milljónir manna eiga allt sitt undir sjávarútvegi komið og jarðarbúar sækja stóran hluta af sínu lifibrauði til hafsins. Ekki verður heldur horft fram hjá þeirri staðreynd að helmingur súrefnis jarðar kemur úr sjónum. Hafið getur líka bundið mikið koltvíoxíð úr andrúmslofti og geymir mikið magn kolefnis.

Til að snúa þessari óheillaþróun við hraðar en nú er gert, þurfum við að stórauka hafrannsóknir og fara af fullum þunga í orkuskipti.

Sýnum auðlindinni virðingu

Við Íslendingar eigum mikilla hagsmuna að gæta í þessum efnum og því er mikilvægt að við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi og virðum alþjóðlegar skuldbindingar. Við getum og eigum að sýna gott fordæmi.

Sjávarútvegur á Íslandi hefur verið í fremstu röð á heimsvísu og þeirri stöðu viljum við halda. Það gerum við með því að bera virðingu fyrir auðlindinni, stunda sjálfbærar veiðar og vernda eftir fremsta megni viðkvæm vistkerfi í hafi.

Sem matvælaráðherra ætla ég að beita mér fyrir aukinni áherslu á vistkerfisnálgun þannig að tekið sé tillit til allra þátta vistkerfa við stjórn veiða. Ég vil efla verndun viðkvæmra vistkerfa hafsins í samræmi við þær áherslur og markmið sem sett hafa verið í alþjóðasamningum. Og ég vil að við skoðum betur þátt hafsins í loftslagsmálum, hvort við völdum losun koltvíoxíðs úr hafinu og hvort við getum jafnvel aukið kolefnisbindingu t.d. í þara.

Við höfum fjölmörg tækifæri til að vernda og nýta sem best þá miklu auðlind sem hafið er, okkar er að gæta að þeim.

Höfundur er matvælaráðherra




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×