Skoðun

Verkfæri tungumálsins og ólíkir reynsluheimar

Sigríður Mjöll Björnsdóttir skrifar

Á sunnudagsmorgni fyrir rétt rúmri viku lá covid-veik kona buguð upp í sófa með hundinn sinn í fanginu. Voffi var ekki á frívakt þennan morguninn og þegar stór labrador hljóp yfir túnið fyrir framan heimili okkar var ekkert annað í stöðunni en að taka á málunum. Til þess að koma í veg fyrir heyrnartap eigandans var brugðið á það ráð að kveikja á útvarpinu. Eins og svo oft áður náðu áheyrilegar mannsraddir úr fjarska að dreifa athyglinni og sefa voffa sem lagðist aftur á bringu eigandans. Aldrei þessu vant lagði hins vegar eigandinn við hlustir.

Úr tækinu dundu ýmis skilaboð á slæptri konu sem ekki átti sér viðreisnar von. Ein rödd hafði áhyggjur af því að ákveðin öfl í samfélaginu væru að skapa flækjustig í íslensku máli sem gerði það að verkum að krakkar vissu varla lengur hvernig þau ættu að tala. Sú hin sama rödd taldi þetta „klassíska afleiðingu öfga“ þar sem verið væri að „endurskrifa málið“ til þess að ná stjórn á umræðunni og þankagangi fólks. Að auki var ákveðinn hópur fólks ásakaður um að að tala viljandi málfræðilega rangt mál „til þess að sanna sig sem liðsmenn í einhverri öfgahreyfingu.“ Önnur rödd benti á að þessi hópur hefði líklega einhvers til síns máls þar sem íslenskan væri mjög „kynjuð“ og einkum og sérílagi „mjög karlkynjuð“. Þessi sjónarmiðaþeytingur náði hámarki þegar einn karlkyns viðmælenda lýsti því yfir að hann liti stoltur á sig sem eins konar hetju þó svo að hetja væri kvenkynsorð í íslensku. Á þeim tímapunkti hafði hins vegar sjúklingurinn (sem betur fer) orðið sér úti um verkjastillandi lyf.

Ofangreindur skoðanagrautur endurspeglar vel þá meinloku sem skapast hefur í umræðu um svokallað kynhlutlaust mál í íslensku. Tilgangur þessarar flugu er ekki að gefa tæmandi yfirlit yfir kynhlutlausa málnotkun í íslensku. Markmið mitt er fremur að gera tilraun til þess að afbyggja algengur mýtur sem standa uppbyggilegri umræðu um kynhlutlaust mál fyrir þrifum. Í sinni núverandi mynd er umræðan að mínu mati bæði ruglingsleg og beinlínis skaðleg.

Til þess að gera langa sögu stutta, felst kynhlutlaust mál í innleiðingu hvorugkyns sem sjálfgefins kyns í íslensku, einkum og sérílagi í notkun fornafna sem vísa til einstaklinga og í almennum staðhæfingum. Téð kynhlutleysi í málnotkun felst meðal annars í notkun kynhlutlausa fornafnsins hán og hins vegar í notkun hvorugkyns í þriðju persónu fleirtölu (þau) í stað samsvarandi karlkynsmyndar (þeir). Algengara hefur verið að nota karlkyn til þess að tjá kynhlutleysi eða almennar staðhæfingar í íslensku þó svo að hvorugkynsmyndin hafi einnig verið möguleg, að minnsta kosti í mörgum tilvikum.

Krafan um kynhlutleysi sprettur upp úr ágreiningi um það hvort að karlkyn geti táknað kynhlutleysi í íslensku þrátt fyrir skírskotun til líffræðilegs karlkyns. Bent hefur verið á að slík málnotkun geti verið útilokandi fyrir kynsegin einstaklinga. Hins vegar hefur kynhlutlaus málnotkun vakið úlfúð hjá mörgum málnotendum sem telja þessa málnotkun beinlínis ranga og kippa stoðunum undan íslenskri málfræði. Slíkt viðhorf kemur fram svart á hvítu í skýrslu íslenskrar málnefndar um kynhlutlaust mál þar sem bent er á „hin ýmsu ljón“ sem standa í vegi fyrir innleiðingu kynhlutlauss máls í opinberri málstefnu. En hver eru ljónin í málfræðilegu kyni í íslensku? Á hvaða stoðum hvílir íslenskt kynjakerfi? Með öðrum orðum, hvert er gangverk hins íslenska kynjakerfis? Hvað þarf að vernda og fyrir hverju?

Í umræðu um kynhlutlaust mál er því oft haldið fram að íslenskt mál sé afar „kynjað“. Svokölluð kynhlutlaus málnotkun gerir hins vegar íslenska málfræði í raun ekki „kynhlutlausa“ frá sjónarmiði málfræðinnar. Nafngiftin kyn er arfleifð frá forngrískum og latneskum mállýssingum þar sem nafnorðum var skipt niður í flokka eftir karlkyni, kvenkyni eða hvorugkyni. Það er engin forskrift að því hvernig kynjakerfi virka. Sem dæmi um fjölbreytni kynjakerfa má benda á að sum tungumál aðgreina nafnorð eftir því hvort þau tákni grænmeti eður ei. Leit málfræðinga að algildum í gangverki kynjakerfa í tungumálum heimsins hefur ekki skilað miklum árangri í tímans rás. Hins vegar hefur sú leit skilað aukinni þekkingu á getu mannshugans til þess að tileinka sér margslungin mynstur til þess að tjá reynslu sína.

Þó svo að oft sé skörun á milli líffræðilegs og málfræðilegs kyns er hún oft á tíðum gloppótt og formlegir, fremur en líffræðilegir, þættir mun veigameiri í mörgum kynjakerfum, þar á meðal íslensku. Líffræðilegt kyn getur til að mynda ekki útskýrt hvað gerir nafnorðið stól kvenkyns í frönsku en karlkyns í íslensku. Nafngiftin er því í raun villandi enda hafa ýmsir málfræðingar brugðið á það ráð að ræða um nafnorðaflokkun fremur en kyn (noun class/categorization á ensku) til þess að draga úr skírskotuninni við líffræðilegt kyn. Það er því engin kynjamismunun innbyggð inn í málkerfið. Íslenskan er ekkert „karlkynjuð“ þó að í gegnum tíðina hafi margir málnotendur notað þeir í almennum eða kynhlutlausum skilningi. Tíðni kynjanna þriggja í íslensku er til dæmis nokkuð jöfn og ung börn ná ekki tökum á karlkyni á undan kvenkyni eða hvorugkyni.

Er því þörf á svokallaðri kynhlutlausri málnotkun ef málfræðilegt kyn í íslensku hefur í raun ekkert með líffræðilegt kyn að gera? Sterkasta tenging málfræðilegs kyns við líffræðilegt kyn í íslensku felst í notkun fornafna sem vísa til einstaklinga. Fornöfn hafa nokkra sérstöðu gagnvart öðrum nafnliðum að því leyti að notkun þeirra er aðstæðubundin og getur þar með verið félagslega eða merkingarlega skilyrt. Því getur málnotkun verið útilokandi ef að einstaklingur er ávarpaður með þeim hætti sem virðir auðkenni og/eða tilfinningar viðkomandi að vettugi.

Getur kynhlutlaus málnotkun ógnað gangverki hins íslenska kynjakerfis? Málfræðilegt kyn í íslensku er kerfi sem samanstendur af reglum og undantekningum. Reglurnar endurspeglast í því þegar málnotendur geta úthlutað málfræðilegu kyni til orðs sem þeir aldrei hafa heyrt áður án þess að hika. Í rannsóknum mínum á málfræðilegu kyni í íslensku hefur til að mynda komið fram að fullorðnum málnotendum þyki undantekningarlaust bullorðið lerfur vera í karlkyni þrátt fyrir að hafa enga hugmynd um hvað orðið standi fyrir.

Stundum kemur þó fyrir að málnotendum vefjist tunga um tönn: Er þetta orð í karlkyni, hvorugkyni eða kvenkyni? Þessi óvissa birtist í breytileika í úthlutun málfræðilegs kyns. Til dæmis er kyn ýmissa tökuorða á reiki eins og e-mail sem er ýmist úthlutað karlkyni eða hvorugkyni eða jógúrt sem fyrirfinnst í öllum kynjum í íslensku. Þessar staðreyndir vekja óhjákvæmilega upp þá spurningu hvort einhver almenn regla ríki í kynjakerfi íslenskunnar?

Margir málfræðingar, innlendir og erlendir, hafa haldið því fram að hvorugkyn sé sjálfgefið kyn í íslensku. Þegar talað er um að einhver regla sé sjálfgefin í málfræði er átt við að hún sé hin almenna regla sem beitt er þegar „allt annað þrýtur“. Hvorugkyn í íslensku kemur oft fyrir í setningafræðilegu umhverfi þar sem engar „upplýsingar“, í formi reglna eða líffræðilegs kyns, liggja fyrir. Dæmi um slíkt umhverfi er þegar frumlag er setning, samanber dæmi á borð við Að María skuli elska þennan fávita er hreint út sagt ótrúlegt! þar sem lýsingarorðssagnfyllingin (ótrúlegt)gætir samræmis við frumlagið (Að María skuli elska þennan fávita) í hvorugkyni. Ef að hvorugkyn er sjálfgefið kyn í íslensku kynjakerfi, þá er það í raun „kerfisvilla“ að notast við karlkyn í kynhlutlausum eða almennum skilningi í íslensku. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að sú hefur einfaldlega verið raunin.

Tungumál eru stútfullt af „kerfisvillum“ þó svo að fólk gefi þeim ekki alltaf gaum. Kerfisvillur geta leitt af sér breytileika í málinu því þá þurfa málnotendur einfaldlega að leggja á minnið hvernig þeir ætla að nota málið í tilteknum aðstæðum þar sem ekki er hægt að grípa til neinnar almennrar reglu. Oftast ryður eitt form sér rúms á kostnað annars án þess að endilega sé hægt að skýra það út frá kerfiseiginleikum málsins. Það er einfaldlega tölfræðileg tilviljun að karlkyn hafi verið notað í almennum og kynhlutlausum skilningi í gegnum tíðina í íslensku. Í hverju felst þá hin aukna notkun hvorugkyns á kostnað karlkyns í almennum/kynhlutlausum skilningi í íslensku? Hún felst einfaldlega í félagslegri/merkingarlegri skilyrðingu á breytileika sem var þá þegar til staðar í íslensku kynjakerfi.

Fornafninu hán hefur verið fundið ýmislegt málfræðilegt til foráttu. Meðal annars hefur því verið haldið fram að ekki sé hægt að taka upp nýtt fornafn þar sem fornöfn tilheyri svokölluðum lokuðum orðflokki. Hefð er fyrir því í málfræðilýsingum að gera greinarmun á opnum og lokuðum orðflokkum. Orð í opnum orðflokkum, á borð við nafnorð, sagnorð eða lýsingarorð, taka vanalega við tökuorðum eða nýyrðum -- ólíkt orðum í lokuðum flokkum, á borð við forsetningar og önnur kerfisorð í tungumálinu. Hins vegar er í raun ekkert sem getur fyrirfram ákveðið hvað sé opinn og hvað sé lokaður orðflokkur. Skipting í opna og lokaða orðflokka endurspeglar einfaldlega þá staðreynd um málnotkun okkar að það er líklegra að við þurfum á nýju nafnorði að halda til þess að tjá reynsluheim okkar -- frekar en forsetningu.

Breyttur reynsluheimur getur kallað á breytta fornafnanotkun. Slíkt á sér sannarlega fordæmi í íslenskri málsögu þar sem fornafnanotkun hefur tekið ýmsum breytingum í gegnum tíðina. Sem dæmi má nefna að Íslendingar kjósa að notast ekki lengur við þéringar. Eflaust getur verið framandlegt fyrir einhverja að nota nýtt persónufornafn. Hins vegar er nýyrðasmíði í íslensku nær undantekningarlaust talin lofsverð. Til að mynda hefur þótt afar jákvætt að íslenskt mál innleiði ýmis nýyrði tengd tækni og tólum eftir því sem tæknivæðing samfélagsins hefur aukist. Því virðast íslenskir málnotendur almennt stoltir af frjósemi íslensks máls. Í ljósi þessa er andúðin gagnvart kynhlutlausu máli athyglisverð og áhyggjuefni.

Getur kynhlutlaus málnotkun leitt til þess að börn viti ekki hvernig þau eigi að tala? Íslensk málfræði er endurskrifuð á hverjum degi þegar ung börn byrja að nema mynstur í málhljóðunum sem þau heyra í kringum sig. Á grundvelli þeirra mynstra byggja þau upp kerfi sem þau nota til þess að alhæfa umfram reynslu. Í uppvexti sínum heyra börn takmarkaðan fjölda orða og setninga. Kerfið gerir þeim hins vegar mögulegt að mynda óendanlegar margar setningar og búa til ný orð upp á eigin spýtur. Ég hef verið svo lánsöm að hafa fengið að rannsaka hvernig þessi heillandi eiginleiki mannshugans þróast hjá íslenskum börnum á undanförnum árum. Þar hef ég orðið vitni að ótrúlegri getu barna til þess að læra reglur samhliða undantekningum í tungumálinu, þar á meðal kynjakerfinu. Það er því ekki þörf á snemmtækri íhlutun frá Miðflokknum til þess að börn „viti hvernig þau eigi að tala“.

Nærtækar væri að fræða börn um mikilvægi þess að tala við fólk af virðingu og þá staðreynd að það geti þýtt ólíka hluti fyrir ólíka einstaklinga. Í raun held ég að það sé lágmarkskrafa allra þegna í lýðræðislegu samfélagi. Fyrir mitt leyti get ég staðfest að mér þyki niðrandi að karlkyns kollegar mínir séu skrýddir ýmsum akademískum fjöðrum í ávarpi háskólanema á meðan ég er oftar en ekki kölluð fröken í Þýskalandi þar sem ég er starfandi. Þetta helst í hendur við það að gera ráð fyrir því að aðstoðarkennarinn í námskeiðinu sem ég kenni (karlkyns doktorsnemi) sé prófessor. Þá getur verið þreytandi að vera kölluð vinan í íslensku háskólasamfélagi þegar maður heldur fyrirlestra um rannsóknir sínar. Málnotkun okkar afhjúpar alls kyns félagslegar skilyrðingar og fordóma. Þetta eru hins vegar algjörir smámunir í samanburði við þá útskúfun sem horfir við kynsegin einstaklingum og öðrum jaðarhópum samfélagsins. Sú útskúfun hefur nánast hvergi komið eins sterkt fram en í umræðunni um kynhlutlaust mál í íslensku. Í þeirri umræðu hefur hópur fólks tekið sig saman um að gera íslenskri málfræði upp eiginleika sem standast ekki nánari skoðun. Sá hópur hefur að auki gert sig að fórnarlambi í umræðunni sem enn og aftur kristallast í skýrslu íslenskrar málnefndar um kynhlutlaust mál:

Þetta dregur athygli að spurningunni um hvort einstaklingar hafi rétt til að beita eigin móðurmáli og þurfa ekki að taka upp nýtt málfar (hér: kynhlutlaust málfar) sem þeim er ekki tamt. Auk þess getur tæpast talist jákvætt að fólk verði fyrir aðkasti fyrir að nota það mál sem því er tamt. Krafa um kynhlutlaust málfar getur einnig leitt til málótta hjá þeim sem eru ókunnugir því.“ (bls. 10 í skýrslu um Kynhlutlaust mál)

Á öðrum stað í skýrslunni er talað um að kynhlutlaust mál geti skapað stéttaskiptingu þar sem um sé að ræða málfar sem ekki allir noti. Að mínu mati felst hins vegar hin raunverulega stéttaskipting í þeirri staðreynd að ákveðinn hópur í samfélaginu telji sig hafa tilkall til þess að ákveða reynsluheim hverra tungumálið má og má ekki tjá.

Nú kviknar óhjákvæmilega sú spurning: Á að neyða kynhlutlausu máli upp á fólk? Það er í raun ekki hægt. Hér er þörf á umburðarlyndi á báða bóga. Það getur í raun engin(n) véfengt máltilfinningu þeirra sem tamt er að nota karlkyn umfram hvorugkyn í almennum eða kynhlutlausum skilningi. Jafnframt er ekki endilega hatur eða útskúfun inngreypt inn í slíka máltilfinningu. Hún er einfaldlega afleiðing tölfræðilegrar tilviljunar sem endurspeglar það málumhverfi sem þeir einstaklingar ólust upp við. Eftir því sem fleiri alast upp við aukna notkun hvorugkyns, þar sem áður var algengara að nota karlkyn, er hins vegar möguleiki á því að tölfræðin breytist – en aðeins tíminn getur leitt það í ljós. Eftir því sem félagslegur raunveruleiki málnotenda tekur breytingum er þó líklegt að fleiri vilji nota málið á þann hátt sem þeim finnst best endurspegla þann veruleika.

Það er hrein og klár útskúfun að útiloka reynsluheim einstaklinga á þeim grundvelli að hann samræmist ekki gangverki íslenskrar málfræði. Umræðan um kynhlutlaust mál í íslensku minnir að mörgu leyti á umræðuna um mál svartra Bandaríkjamanna á árum áður. Í ákveðnum mállýskum í ensku tíðkast svokölluð tvöföld neitun. Í því felst að málnotendum finnist tækar setningar á borð við I don´t know no Icelandic þar sem formlegri neitun (don´t og no) er beitt tvisvar. Þessi regla er ekki við lýði í staðalensku og hefur reglulega verið gerð að háði og spotti. Í rökfræði leiðir tvöföld neitun til þversagnar (tveir mínusar gera plús). Þessi regla var notuð til þess að grafa undan mannréttindum svartra Bandaríkjamanna á þeim grundvelli að hún færði sönnur fyrir heimsku þeirra. Hins vegar fékk tvöföld neitun að lifa óáreitt í spænsku og mörgum öðrum tungumálum. Það var ekki fyrr en seint á 20. öld að málfræðingar bentu réttilega á að tvöföld neitun væri eins og hver önnur málfræðiregla sem lyti sínum eigin lögmálum og hefði ekkert með vitsmunalega getu fólks að gera.

Íslenska er ein af fjölmörgum birtingarmyndum þess hvernig mannshugurinn getur alhæft umfram reynslu og tjáð allt mögulegt – raunverulegt, óraunverulegt, ímyndað -- hvort sem er í nútíð, fortíð eða framtíð. Ég fagna kynhlutlausri málnotkun sem endurspeglar það hvernig verkfæri tungumálsins geta verið nýtt til þess að tjá sífellt nýja og fjölbreytilega reynslu. Í því felast töfrar sköpunarmáttar mannlegs máls í hnotskurn.

Höfundur er doktor í almennum málvísindum sem starfar við rannsóknir og kennslu við Konstanz-háskóla í Þýskalandi.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×